139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[18:07]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um tillögu til þingsályktunar frá sjálfstæðismönnum um aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin og er það vel. Ég kem hér upp til að fagna meginhluta þessara tillagna sem að mínu viti eru ágætlega ígrundaðar og afskaplega mikilsvert að þingmenn reyni að tala sig til sáttar í þessum sal.

Fyrir nokkrum dögum komu framsóknarmenn með ágætar tillögur í svipaða veru þó að þær séu ekki algjörlega sambærilegar, enda frá öðrum flokki, og þá kom sá sem hér stendur einnig upp í pontu og fagnaði þeim tillögum. Nú eru sjálfstæðismenn komnir fram með sínar tillögur og mjög margt í þeim er virkilega uppbyggilegt. Ég get fallist á stóran hluta af þeim tillögum.

Það er nú einu sinni svo og ég hef bent á það áður í ræðustóli, frú forseti, að stjórnmálamenn eru oft og tíðum að meginhluta sammála um hvernig eigi að bregðast við aðsteðjandi vanda og hvernig eigi að sækja fram í atvinnumálum og fleiri stórum málaflokkum. Ég gríp niður í lítinn hluta þessara tillagna á bls. 2 þar sem ég krotaði hjá mér að af sex liðum væri ég sammála fimm og nokkurn veginn sammála þeim sjötta, en hann varðar fyrningarleiðina sem ég vil reyndar skoða. Ég vek athygli á því að sjálfstæðismenn vísa henni ekki einvörðungu út af borðinu heldur nefna líka að leita verði sáttar í fiskveiðstjórnarkerfinu og finnst mér þroskað af hálfu sjálfstæðismanna að nefna það í kjölfar þess að þeir hafna fyrningarleiðinni.

Gott og vel. Sjálfstæðisflokknum hefur oft verið legið á hálsi fyrir að gæta hagsmuna þeirra ríku og sérhagsmunaaðila í samfélaginu og þess vegna gleður það mig ákaflega að fletta upp á bls. 12 í bæklingi sjálfstæðismanna þar sem fjallað er um fátæktargildrurnar í samfélaginu. Það er mjög mikilvægt á krepputímum að gleyma ekki minnstu bræðrum sínum og systrum heldur horfa til þess hóps sem kannski græddi ekkert á þensluskeiðinu í íslensku samfélagi og gengur með skarðan hlut frá borði. Það eru ekki bara þeir atvinnulausu heldur líka þeir sem af heilsufarsástæðum geta ekki sótt inn á vinnumarkaðinn og eru kallaðir öryrkjar. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að leysa þurfi þennan hóp með einhverjum ráðum úr fátæktargildru og þess vegna gleðst ég mjög yfir því sem sjálfstæðismenn nefna í þessari tillögu sinni að efla þurfi Starfsendurhæfingarsjóð sem gegni mikilvægu hlutverki. Svo ég vitni enn frekar, með leyfi forseta, í þennan lið tillagna sjálfstæðismanna kemur þar fram og sagt er:

„Hér verður einnig að nefna að tilfærslu- og bótakerfið á Íslandi er vegna tekjutenginga hlaðið fátæktargildrum. Hvers vegna ætti nokkur að vilja hverfa af bótum og fara út á vinnumarkaðinn þegar nær allar tekjurnar eru hirtar af ríkinu með skertum bótum?“

Þetta er eins og talað úr mínum munni og þess vegna legg ég mikla áherslu á að þingmenn úr öllum flokkum komi að því verki að leysa stóran hóp landsmanna úr þeirri fátæktargildru sem hann er í. Ég nefni stóran hóp, á að giska 15 þúsund Íslendingar eru nú á örorkubótum og þeim hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Ef mig misminnir ekki, frú forseti, hafa 1.300 manns orðið öryrkjar í samfélaginu á hverju ári sl. áratug. Það er gríðarlegur fjöldi. Við verðum að bregðast við þeirri nýju mynd sem blasir við þjóðfélagi okkar með markvissum hætti. Ég fagna því sérstaklega þessum lið í tillögum sjálfstæðismanna.

Ég tek líka undir margt er varðar atvinnulífið og atvinnuuppbyggingu sem sjálfstæðismenn ræða um. Ég er ekki endilega sammála skattahlið þeirra tillagna og tel að við Íslendingar eigum fyrst og síðast að koma upp fyrirtækjum sem geta skilað góðu búi inn í samneysluna hér á landi en þurfi ekki á að halda einhvers kona skattaörorku og eilífum ívilnunum. Ívilnanir þurfa vissulega að vera í einhverjum takti við það umhverfi sem við keppum við á Evrópumarkaði og í nærumhverfi hins alþjóðlega samfélags, en í skattbreytingum fyrir fyrirtæki í landinu má ekki felast einhvers konar skattaörorka þeim til handa.

Þá að atvinnuuppbyggingunni: Ég gat þess áðan að 1.300 manns verði öryrkjar í samfélaginu á hverju ári. 1.600 Íslendingar bætast við vinnumarkaðinn á hverju ári og þurfa á vinnu að halda. Við þurfum því að mæta þessum hópi og þeim stóra hópi fólks sem er enn án atvinnu. Við sjáum að 4.500 Íslendingar hafa verið án atvinnu, frú forseti, í tvö ár eða lengur. Það er gríðarlega stór hópur og sá hópur er í auknum mæli að skila sér inn í örorku þannig að við erum að búa til vítahring. Við verðum að bregðast við þessu. Af þessum 4.500 manna hópi eru 500 á Suðurnesjum og þess vegna gladdi það mig þegar ríkisstjórnin fór suður eftir í morgun og kynnti þar margvíslegar tillögur sem vonandi verður fylgt eftir af þunga.

Þegar ég les tillögur sjálfstæðismanna get ég samsinnt þeim að meginhluta. Það eina sem greinir kannski á milli mín og Sjálfstæðisflokksins hvað þær varðar, ef skattahlið málsins sleppir, er hversu ríkulega við eigum að ganga á þjóðarauðlindir okkar fyrir eina atvinnugrein. Ég hef talað fyrir atvinnumálum er varða stóriðju hringinn í kringum landið í pontu Alþingis. Ég er ófeiminn við að nefna álver til sögunnar þegar kemur að atvinnumálum og tel reyndar mjög fjölbreytta atvinnu að finna innan álveranna eins og dæmin sanna frá Reyðarfirði og víðar um landið, svo sem í Straumsvík þar sem starfsmannavelta er svo að segja engin og starfsánægja gríðarleg. Þetta nefni ég vegna þess að við þurfum auðvitað að staldra við þá pólitísku spurningu um hversu stórum hluta af orkuauðlindum okkar við ætlum að verja til eins ákveðins málaflokks í atvinnulífi okkar. Þar horfi ég t.d. til Bakka sem nefndur er í þessum tillögum. Þar eru líklega um 400 megavött í boði en e.t.v. þurfum við að fara okkur hægar í þeim efnum og byrja á 180 þús. tonna álveri, hvort heldur það er frá Alcoa eða Kínverjum gildir einu. Aðalatriðið er að nýta þessa orku til atvinnuuppbyggingar. Ef einhver önnur verkefni koma þar til greina er það hið besta mál en hingað til hafa engin önnur verkefni verið í boði fyrir orku sem þarna bullar í iðrum jarðar. Því hljóta menn, sakir þess raunsæis sem er mjög mikilvægt í atvinnuuppbyggingu landsmanna nú um stundir, að horfa til þeirra kosta í atvinnumálum á viðkomandi svæði sem eru nærtækastir og raunsæjastir. Svo geta menn deilt um hvort þeir vilji eyða allri orkunni á hverjum stað fyrir einn kost, hvort heldur það er, frú forseti, hér sunnan heiða á Reykjanesi eða norður í landi. Það er stærri pólitísk spurning sem menn þurfa engu að síður að takast á við og flokkana greinir töluvert á, eins og fram hefur komið í púlti Alþingis.

Almennt séð fagna ég þessum tillögum. Ég tek reyndar eftir því að sjálfstæðismenn nefna ekki gjaldmiðilsmálin í plaggi sínu sem ég hef farið í gegnum. Ég tel að ein mesta hættan fyrir íslensk heimili í landinu sé sú króna sem landsmenn búa við og íslensk heimili eru kannski fyrst og síðast þrælar þeirra gengissveiflna sem krónan hefur getið af sér. En ég tek undir þessar tillögur í meginatriðum, stórum dráttum. Ég tel mjög mikilvægt að íslenskir alþingismenn og stjórnmálamenn yfirleitt afleggi þann ósið að dvelja einkum og sér í lagi við þau fáu atriði í svona stóru plaggi sem þeir eru ósammála um. Þeir eiga miklu fremur að einhenda sér í þau verk sem þeir eru sammála um. Ég held að stór hluti Alþingis, frú forseti, geti samsinnt fjölmörgum þeim tillögum sem hér eru komnar fram. Það er mjög mikilsvert, en þeim mun mikilvægara er að þingmenn tali sig saman um að komast í gegnum þau alvarlegu vandamál sem blasa við íslensku þjóðinni nú um stundir en komi ekki bara upp í pontu og dvelji við það fáa sem þeir kunna að vera ósammála um.