139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[18:31]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans áðan um þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin o.fl., eins og það heitir.

Mig langar til að nota þennan stutta tíma til að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson út í nokkur atriði varðandi þessar tillögur, sem hann bæði nefndi og í sjálfu sér nefndi ekki en sagði að búið væri að liggja lengi yfir þessum tillögum. Ég reikna því með að svörin séu á reiðum höndum hvað þetta varðar.

Varðandi skattamálin til að byrja með, það er lagt til að þær skattbreytingar sem ráðist hefur verið í af núverandi ríkisstjórn, bæði á síðasta ári og fyrir yfirstandandi ár og þær tillögur sem liggja fyrir verði afturkallaðar. Það er reyndar frekar óljóst, finnst mér, eftir að hafa hlýtt á ræðumenn í dag og fyrir helgina sömuleiðis um hvaða skattbreytingar er að ræða, því að þegar hlustað er á málflutning þeirra sem bera fram þessa tillögu á þinginu er það ekki alveg á hreinu. Sumar breytingar eiga að fá að standa en aðrar ekki, skilst mér. Hvaða skattbreytingar á að afturkalla að mati þingmannsins? Eru það allar eða er eitthvað undanskilið í því?

Mig langar sömuleiðis til að vita um áherslur Sjálfstæðisflokksins varðandi skuldavanda heimilanna sem hefur verið ræddur bæði í þinginu og utan þings, af stjórn og stjórnarandstöðu í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og fleiri. Eru sjálfstæðismenn horfnir frá þeim hugmyndum sem uppi hafa verið og þeir m.a. lögðu til að hluta í síðustu kosningabaráttu, um flata niðurfellingu skulda að einhverju marki, a.m.k. sumir þingmenn? Eru sjálfstæðismenn fallnir frá þeim hugmyndum um niðurfellingu skulda eða leiðréttingu á skuldum umfram það sem þegar hefur verið gert?