139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að taka undir orð síðasta ræðumanns um að við þurfum að breyta þessum lið. Úti í samfélaginu hefur farið fram umræða um að héðan frá Alþingi komi ekki sú rökræða sem þurfi að fara fram um einstök mál, umræðuhefðin sé meira í anda kappræðunnar en ég held að það stafi fyrst og fremst af því að okkur þingmönnum sem liggur oft mikið á hjarta gefst ekki annað tækifæri en einmitt undir þessum lið til að ræða mjög mikilvæg mál. En við höfum aðeins til þess tvær mínútur sem er sáralítill tími og eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson benti á rétt áðan þarf kannski einmitt að lengja umræðuna og fá andsvör.

Ég bendi líka á að fjölmiðlar virðast vera mjög uppteknir af þessum lið. Til að mynda var um daginn í fréttum, sem birtu að mínu mati ranga mynd af Alþingi, þegar hæstv. forsætisráðherra bað stjórnarandstöðuna að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. (Forseti hringir.) Rétt á eftir fór fram mjög málefnaleg og góð umræða (Forseti hringir.) um stöðu heimilanna sem fékk enga athygli (Forseti hringir.) í fjölmiðlum.