139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

skýrsla ESB um framgang aðildarviðræðna.

[13:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Eins og ég sagði áðan er mér það gleðiefni að hv. þingmaður hefur lesið framvinduskýrsluna. Ef hann hefur reynt að greina hana hefur hann komist að hinu sama og ég: Það er mjög ólíklegt miðað við það sem Evrópusambandið segir að það setji fram einhverjar slíkar kröfur nema innan ákveðinna málaflokka sem núna eru utan EES-samningsins og vegna þess hefur engin aðlögun þegar átt sér stað. Þetta eru sjór og land. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, Evrópusambandið telur upp slatta af atriðum í landbúnaði og ákveðin atriði í sjávarútvegi og þar er sagt: Þetta er það sem Evrópusambandið vill, það liggur fyrir. Það var sagt í febrúar.

Við höfum hins vegar sagt: Þetta eru atriði sem við þurfum að semja um. Um það sem út af stendur og búið er að afmarka í rýnivinnu semjum við. Við komumst að einhverri niðurstöðu um það hvernig við munum að lokum taka að okkur að samræma regluverkin og við leggjum fram áætlun um hvernig við ætlum að gera það og þeirri áætlun verður hrint í framkvæmd (Forseti hringir.) þegar þjóðin hefur goldið jáyrði. Það er ekki flóknara en þetta. Þetta er einfalt mál.