139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að tjá mig um tillöguna sem hér er til umfjöllunar og er flutt af sjö þingmönnum um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

Ég vil byrja á því að segja að það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að tillaga í þessa veru komi fram vegna þess að vissulega vitum við öll að umsóknarferlið gagnvart Evrópusambandinu er umdeilt í íslensku samfélagi og á Alþingi. Það er eðlilegt að tekist sé á um þessi mál.

Ég vil líka bregðast við gagnrýninni sem komið hefur fram frá 1. flutningsmanni málsins að það sé mikill hringlandaháttur varðandi málið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Að við séu í allt öðru ferli en menn samþykktu á sínum tíma. Það má skilja það þannig að málið hafi tekið aðra stefnu en lagt var upp með. Ég er ekki sammála þessu. Ég held að því miður stafi þetta af því að menn hafi ekki lesið til hlítar lýsingarnar á skipulagi viðræðnanna eins og þeim er lýst í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar á þskj. 249 á 137. löggjafarþingi. Þar er að finna ítarlega lýsingu á því hvernig aðildarviðræður við Evrópusambandið eru byggðar upp, hver er aðkoma framkvæmdarvaldsins, hlutverk þess, hver er aðkoma Alþingis, hagsmunaaðila o.s.frv. Lýst er rýnivinnunni sem núna er í gangi, hvernig formlegar viðræður fara af stað og allt yfir í það að lýsa staðfestingarferlinu í lokin. Þessu er ítarlega lýst í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Hafi menn skoðað til þrautar þegar þeir greiddu atkvæði um málið sumarið 2009 þá á ekkert í ferlinu að koma á óvart vegna þess að það er í samræmi við lýsingarnar sem þar er að finna.

Ég get þó sagt að þar sem helst má finna frávik frá því er að ferlið hefur tekið heldur lengri tíma en menn, a.m.k. margir hverjir, gengu út frá sumarið 2009 þegar þetta var til umfjöllunar. Þannig voru t.d. margir þeirrar skoðunar að umsóknin yrði tekin fyrir á leiðtogafundi Evrópusambandsins í desember 2009. Það náðist ekki og þá voru menn með hugann við mars 2010 en það varð ekki fyrr en í júlí. Ferlið hefur tekið lengri tíma en eðli þess hefur ekkert breyst. Það er með nákvæmlega sama hætti og meiri hluti utanríkismálanefndar lýsir í nefndarálitinu. Svo geta menn verið ósáttir við að menn séu í þessu ferli. Það er ekki sanngjarnt að koma og segja að það sé með öðrum hætti vegna þess að það er eins og því er lýst í nefndarálitinu. Það er mergurinn málsins. Menn geta, eins og ég segi, haft ýmsar skoðanir á því hvort það hafi verið rétt að fara í það o.s.frv. Menn geta komið og sagt að það sé undarlegt að ríkisstjórnarflokkarnir og einstakir ráðherrar hafi ólíkar skoðanir á málinu og sagt að það komi Evrópusambandinu á óvart. Ég held að það komi Evrópusambandinu bara ekkert á óvart.

Það er heldur ekkert nýtt í þessu. Það hefur gerst m.a. þegar frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum, dæmi Svíþjóð og Noregur, sóttu um aðild að Evrópusambandinu á 10. áratugnum. Það voru ólíkar skoðanir í stjórnmálaflokkunum í ríkisstjórn. Þegar Noregur var í viðræðum við Evrópusambandið sat t.d. sjávarútvegsráðherra þar í landi sem var harður andstæðingur aðildar að Evrópusambandinu. Hafa menn heyrt þetta áður? Það er bara nákvæmlega sama staða og hér. Það flæktist ekkert fyrir Evrópusambandinu að eiga í viðræðum við Noreg af þeim sökum, það gerði það alls ekki.

Ég get upplýst það að ég hef í starfi mínu sem formaður utanríkismálanefndar átt fjölmarga fundi með þingmönnum bæði í þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins, á Evrópuþinginu, forustumönnum innan Evrópusambandsins, ráðherrum og háttsettum embættismönnum innan Evrópusambandsins. Það er öllum ljóst að það eru ólíkar skoðanir hér á landi og stjórnarflokkarnir tveir hafa ólíka sýn á því hvort við eigum að fara í Evrópusambandið eða ekki. Það er skrifað í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hvor flokkur um sig áskilji sér fullan rétt til að halda uppi sínum málflutningi og baráttu í samfélaginu í þessu máli. Það er heldur ekkert óeðlilegt við það í lýðræðissamfélagi eða hvað? Það var lagt upp með þetta mál þannig að það kæmi þingsályktunartillaga um ferlið og það yrði þingsins að taka ákvörðun. Það var gert og það var gert á lýðræðislegan hátt. Ég er meira og minna sammála viðhorfunum sem komu fram í máli hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur hvað þetta mál snertir. Afstaða mín er áþekk því sem hún lýsti hvað sig varðar.

Það er líka fjallað um þessa tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluleið og það kom fram tillaga um hana eins og hv. 1. flutningsmaður rakti í máli sínu. Ég sagði eftirfarandi þegar ég mælti fyrir nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar í júlí 2009, með leyfi frú forseta:

„Í störfum nefndarinnar kom töluvert til umræðu hvort halda skyldi tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þá fyrri um hvort farið skyldi í aðildarviðræður við Evrópusambandið og þá síðari um hvort samþykkja skyldi hugsanlegan aðildarsamning. Það er niðurstaða meiri hlutans að ekki skuli ráðast í slíka tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að mikilvægt er að leiða til lykta þá umræðu sem farið hefur hátt í þjóðfélaginu undanfarin ár um hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan eða utan vébanda Evrópusambandsins og hvað hugsanlegur aðildarsamningur fæli í sér. Þar sem aðildarsamningur verður að lokum ávallt borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu telur meiri hlutinn ekki nauðsynlegt að efna fyrir fram til sérstakra kosninga um afstöðu þjóðarinnar til aðildarviðræðna enda liggja fyrir skýrar vísbendingar um að meiri hluti þjóðarinnar sé þess sinnis að ráðast eigi í aðildarviðræður á þessu stigi burt séð frá afstöðunni til sjálfrar aðildarinnar.“

Ég tel ekkert athugavert við að menn telji rétt að láta á þetta reyna og taka afstöðu til aðildarsamnings. Stór hluti þjóðarinnar vill taka afstöðu til málsins á efnislegum forsendum þegar það liggur þannig fyrir. Margir hafa hins vegar þegar mótað sér afstöðu og það er allt í fína lagi með það. Margir vilja af prinsippástæðum fara inn í Evrópusambandið, aðrir vilja af prinsippástæðum alls ekki fara þar inn. Það er ekkert athugavert við það að þessi sjónarmið séu uppi og ég ætla að þau séu bæði til í öllum stjórnmálaflokkum því það eru þau svo sannarlega. Ég tel að ferlið sé nákvæmlega með þeim hætti sem eðlilegt er.

Ég vil aðeins í lokin, frú forseti, minnast á það sem hv. þm. Pétur Blöndal rakti í andsvari sínu við hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Það er hvort það sé ekki sannfæring þingmanna sem eigi að ráða að lokum en ekki leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég er sama sinnis og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir að þessu leyti. Það stendur réttilega í stjórnarskránni, eins og þingmaðurinn gat um, að þingmenn eru bundnir af sannfæringu sinni. Mín sannfæring er sú að það eigi að leggja málið í dóm kjósenda þegar tillaga að samningi liggur fyrir og þjóðin eigi að ráða málinu til lykta. Ég hef sagt fyrir mína parta og ég hygg að menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafi sagt að þjóðin mun að sjálfsögðu ráða niðurstöðunni í þessu máli. Ef þjóðin segir nei við aðild að Evrópusambandinu þá finnst mér að allir þingmenn, líka þeir sem vilja fara þar inn, eigi að virða þá niðurstöðu og öndvert. Það er mín sannfæring í málinu og ég ætla að fylgja þeirri sannfæringu, ég ætla að leyfa mér það. Ég hef mjög sterka sannfæringu fyrir því að í stóru máli af þessum toga eigi þjóðin að fá að ráða. Ég er líka þeirrar skoðunar að þjóðin hefði t.d. átt að fá að kjósa um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma. Það vildu ekki allir. Ég er þeirrar skoðunar að í stórmálum af þessum toga eigi þjóðin að ráða niðurstöðunni, afstöðu sinni og framtíð og hún gerir það í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar upp er staðið. Ég styð ekki þá hugsun sem felst í tillögunni til þingsályktunar en það kemur mér ekki á óvart að hún komi fram. Mér finnst ekkert óeðlilegt að hún komi fram vegna þess að þessi sjónarmið eru sannarlega til í samfélaginu og eiga að sjálfsögðu rétt á að heyrast og fá umfjöllun, fá eðlilega og sanngjarna umfjöllun. Að sjálfsögðu verður það þá gert á vettvangi utanríkismálanefndar komi málið þangað, það verður þá tekið þar til umfjöllunar og síðan mun utanríkismálanefnd væntanlega vinna úr því.