139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur telur hún að ríkisstjórnin hafi skýrt umboð til þess að fylgja þessu máli eftir. Mig langar því að beina þeirri spurningu til hennar: Hvað ef Alþingi dregur það umboð til baka? Ég lít svo á að þeir sem veittu umboðið geti dregið það til baka. Ég held að það umboð sem ríkisstjórninni var veitt sé afar tæpt. Eins og kemur skýrt fram í þingsályktunartillögunni lýstu mjög margir því yfir að þeir væru því andsnúnir en í krafti þess að þeir vildu hér vinstri stjórn létu þeir tilleiðast.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er hún reiðubúin að beita sér fyrir því að málið fari í gegnum nefndir Alþingis og komi hér til síðari umr. þannig að við getum greitt um það atkvæði á lýðræðislegan hátt (Forseti hringir.) jafnvel þó að ég viti að hún muni segja nei við þeirri tillögu?