139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

99. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Ég vil taka það fram hér í upphafi að þetta frumvarp er alveg sjálfstætt og stendur áfram þrátt fyrir að búið sé að breyta ákvæðinu um kosningadag í þjóðaratkvæðagreiðslutillögunni sem var til umræðu hér áðan.

Hæstv. utanríkisráðherra eyddi mikilli orku og tíma í fjölmiðlum þegar þetta mál var lagt fram því að hann taldi að ég væri svo gleymin. Ráðherrann sem fer hér fram með þingsályktunartillögur og lagafrumvarp sem raunverulega fara á móti öðrum lögum, eins og t.d. umsóknin um aðild að Evrópusambandinu sem stangast á við stjórnarskrá vegna þess að ekki er fullveldisafsal í stjórnarskránni. Hæstv. utanríkisráðherra verður að fara að athuga að hann er ekki einn í heiminum. Þó að maður gleymi ákveðnum hlut er ekki hægt að benda á einhverja sök í því sambandi eins og gert var í fjölmiðlum undir forustu Samfylkingarinnar á þeim tíma sem ég lagði tillöguna fram.

Nú ætla ég að fara yfir frumvarpið. Ég legg til, í 1. gr. frumvarpsins, að 4. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna breytist þannig að við bætist svohljóðandi lagagrein:

„Víkja má frá ákvæðum 1. mgr. ef almennar kosningar eru boðaðar innan þriggja mánaða frá samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þarna er ég að rýmka til fyrir því að stytta megi tímann varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru ákveðnar og hafa ekki stoð í stjórnarskrá ef kosningar innan þessara þriggja mánaða. Við skulum hafa það á hreinu að þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem getið er um í stjórnarskrá eiga að fara fram innan tveggja mánaða. Þær sem ekki er getið um í stjórnarskrá skulu fara fram innan þriggja mánaða.

Þegar ég fór að skoða þetta ákvæði með tímamörk þjóðaratkvæðagreiðslna eftir að hitt málið mitt var lagt fram um daginn, þjóðaratkvæðagreiðslutillagan um að þjóðin fái að kjósa um Evrópusambandsaðildarferlið, fór ég að velta því fyrir mér að auðvitað eru þrír mánuðir allt of lítið. Þessi lög eru túlkuð með þeim hætti að það skuli vera a.m.k. þrír mánuðir.

Nú ætla ég að rökstyðja mál mitt.

Í 24. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, segir, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið.“

Þarna er ákvæði um það að rjúfi forseti þing og boði til nýrra kosninga skuli þær fara fram innan sex vikna frá því boðað var til kosninga. Þarna kemur þetta nýja ákvæði inn í framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna í frumvarpinu sem hér liggur fyrir og ég er að ræða. Segjum sem svo að forseti mundi rjúfa Alþingi á morgun vegna þess að ríkisstjórnin hefði sprungið. Þá þarf að kjósa til Alþingis innan sex vikna og þá gæti þjóðaratkvæðagreiðslan, sem við vorum að ræða áðan, rúmast innan þeirra kosninga. Þá væri hægt að taka þá þjóðaratkvæðagreiðslu og kjósa um málið samhliða þingkosningum. Fyrst og fremst er verið að hliðra til þannig að komi fram tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu er hægt að setja hana inn í þær kosningar sem eru boðaðar, og þarna erum við að tala um sex vikur. Þess vegna er nauðsynlegt að þessi hliðrun verði gerð á 4. gr. að það verði boðið upp á þetta.

Það þarf kannski ekki mikið meira að ræða þetta, þetta er nokkuð skýrt. Ég legg áherslu á að með þessu er ég ekki að gera lítið úr því að auðvitað þurfa Íslendingar og þjóðin öll að kynna sér mjög vel mál sem koma til þjóðaratkvæðagreiðslu. En því er nú þannig háttað að séu mál umdeild er meiri ástæða til að vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég minni t.d. á Icesave-samningana sem fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnarflokkarnir höfðu þjóðina síður en svo á bak við sig. Það var merkileg upplifun á íslensku lýðræði þegar þessu var vísað til þjóðarinnar á þann hátt að málið féll 98:2 ríkisstjórninni í óhag.

Þjóðin treysti sér í þá kosningu enda hafði það mál verið mikið í umræðunni. Ég held að ekki sé hætta á því, þessi upplýsta þjóð sem við erum — við erum tölvuvædd, tölum fleiri tungumál, erum raunverulega upplýstasta þjóð sem um getur því við fylgjumst svo vel með, bæði erlendum og innlendum fjölmiðlum — að fjórar vikur eða sex vikur dugi ekki til að fólk geti myndað sér skoðun í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er málið alla vega ekki mikið rætt.

Ég ítreka að ekki er verið að gera lítið úr því að fólk þarf að sjálfsögðu að kynna sér málin vel en ég tel að hægt sé að gera það á styttri tíma en þeim þremur mánuðum sem eru í lögunum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Ég legg þetta hér fram og óska eftir því að málið fari að 1. umr. lokinni til allsherjarnefndar þar sem nefndin mun taka það til umræðu og afgreiðslu.