139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

99. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki fram í frumvarpinu. Það sem þingmaðurinn vísar í er að e.t.v. er búið að rjúfa þing og kosningar standa til innan skamms. Í millitíðinni kemur fram tillaga um að það eigi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál til að samnýta kosningadaginn og það eru aðeins tveir eða þrír dagar upp á að hlaupa.

Ég held að allir sjái að það væri ekki gott því að tíminn er of stuttur. Það gæti verið ástæða til að miða við þetta sex vikna ákvæði sem bundið er í stjórnarskrá, það að 45 daga eigi að líða þar til kosningar fara fram. Það má alveg skoða það. En þetta með tvo til þrjá daga, það sjá allir að það gengur náttúrlega ekki.

Ég vil líka leggja áherslu á það að 4. gr. er meginregla laganna. Frumvarpið sem liggur fyrir segir að víkja megi frá ákvæðum 4. gr. í ákveðnum tilvikum, þ.e. ef búið er að boða til kosninga þegar þjóðaratkvæðagreiðsla er ákveðin. Þriggja mánaða markið verður þar með rofið en þó á skynsamlegan hátt eins og þingmaðurinn bendir á.