139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

99. mál
[17:41]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin.

Ástæða þess að ég hef áhyggjur af því að spyrða saman kosningar eða gera það að meginreglu að hnýta saman mörgum atriðum í sömu kosningu, kemur m.a. til af reynslu sem nágrannaþjóðir okkar í vestri hafa af slíku. Reynslan þar er sú að slíkt leiðir til þess, ef verið er að kjósa um mörg atriði í einu, að kosningaþátttakan minnkar. Það er ekki gott fyrir lýðræðið. Það er þess vegna sem ég viðra áhyggjur mínar.

Í rauninni get ég tekið undir það sem hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu að kannski væri skynsamlegra að hafa almennu regluna sex vikur, en ekki þrjá mánuði eins og nú er.

Varðandi það að spyrða þessu saman við sveitarstjórnarkosningar, þá getur hæglega komið til að tillaga á Alþingi verði samþykkt innan tímarammans í nágrenni við sveitarstjórnarkosningar. Það þarf náttúrlega að vera. Hv. þingmaður upplýsti að það ætti að vera heimilt samkvæmt núgildandi lögum.

Ég vildi koma áhyggjum mínum á framfæri. Ég tel að ef um stórmál sé að ræða, þá eigum við að hafa það sem meginreglu að kjósa um þau, sérstaklega varðandi þetta atriði með stjórnarskrána. Auðvitað er mér eins og hv. þingmanni fullkunnugt um með hvaða hætti breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar á Alþingi. Ég held og ég trúi því að hv. þingmenn séu sammála mér að fáir Íslendingar telji sig hafa upplifað að þeir hafi kosið um breytingarnar á stjórnarskrá þó þeir hafi kosið tvisvar í röð til þings þar sem stjórnarskrárbreytingar voru undir.