139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

99. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit nú ekki hvort við eigum að kalla það sem ég segi núna andsvar eða ekki, þetta eru svona almennar vangaveltur hjá mér og þingmanninum. Ég þakka honum fyrir að taka þátt í umræðunni með þessum hætti.

Varðandi það að hafa tvær eða þrjár atkvæðagreiðslur í gangi á sama tíma, hvort það minnki kjörsókn eða ekki, þá hefur ekki reynt á það hér á landi sem nokkru nemi. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan, sem var þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave, heppnaðist einstaklega vel þrátt fyrir það að þessi vanhæfa ríkisstjórn hafi hvatt þjóðina til að sitja heima í kosningunum. Meira að segja minnir mig að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki einu sinni farið á kjörstað. Þannig að andi stjórnvalda — við erum enn þá lýðræðisríki. Stjórnvöld eru ekki farin að halda þegnum landsins í heljargreipum þó þau reyni oft á tíðum að deyfa hér allt og meira að segja kosningarréttinn sem er miður.

Varðandi það þegar málið er lagt fram, sem var til umræðu áðan, hvort það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvort eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu með ESB-aðlögunarferlið. Ég varð vör við að þarna vantaði inn ákvæði að þessir þrír mánuðir væru of langur tími frá því Alþingi samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu þar til hún getur farið fram. Það er forsendan fyrir því að ég legg frumvarpið fram. Eftir á að hyggja stendur frumvarpið eitt og sér og verður að koma sem breyting inn í lögin vegna ákvæðis í stjórnarskránni að forseti rjúfi þing.

Það er svo sem ekki meira um þetta að segja. Fólk hefur haft samband við mig og lýst skoðun sinni að hefði verið kosið um þá þingsályktunartillögu sem hér var rædd áðan, hefði kosningaþátttakan jafnvel orðið afar góð. Það sem fólk óttast núna í stjórnlagaþingskosningunni — það sem hrindir frá er að hún er flókin og erfið í framkvæmd. Fólk óttast (Forseti hringir.) að það verði léleg mæting. Ef væru spennandi mál (Forseti hringir.) í þjóðaratkvæðagreiðslu gæti það lyft kosningaþátttökunni upp í hæstu hæðir.