139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

Bankasýsla ríkisins.

112. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er einfalt að tala fyrir þessu máli, það gengur einfaldlega út á að leggja niður stofnun sem er fullkomlega óþörf og heitir Bankasýsla ríkisins. Hún var sett á laggirnar á síðasta ári. Þegar menn fóru af stað með það mál var hugmyndin sú að hún ætti að halda utan um alla eigendahluti ríkisins í stóru viðskiptabönkunum en þá leit út fyrir að bankarnir yrðu þrír í eigu ríkisins. Niðurstaðan varð sú eins og við vitum að það er einungis einn banki í meirihlutaeigu ríkisins. Eigendahlutur ríkisins í hinum tveim stóru viðskiptabönkunum er í kringum 10%, ef ég man rétt, og síðan er ríkið með eigendahlut í Sparisjóði Norðfjarðar.

Gert var ráð fyrir að rekstrarkostnaður stofnunarinnar yrði 70–80 millj. kr. — hann er 56 millj. á þessu ári — og miðað við það sem lagt var upp með er gert ráð fyrir að stofnunin verði til í a.m.k. fimm ár. Við erum því að tala um kostnað fyrir ríkissjóð, fyrir skattgreiðendur, upp 250–300 millj. kr. Helstu rökin voru þau að mjög mikilvægt væri að setja þessa stofnun á laggirnar til að halda bönkunum í fjarlægð frá stjórnmálunum og í þessu tilfelli hæstv. fjármálaráðherra. Er það nokkuð áhugaverð nálgun vegna þess að ef menn trúa því að sérstaka stofnun þurfi til að koma í veg fyrir að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn séu með puttana í viðkomandi stofnunum þarf væntanlega að fjölga svona millistykkjastofnunum verulega. Þessi röksemdafærsla stenst vonandi ekki því að hún þýðir þá að hæstv. núverandi fjármálaráðherra er með bein afskipti af öllum hinum stofnununum sem heyra undir hann og eru þær ekki fáar. Til dæmis heyrir ÁTVR undir hæstv. fjármálaráðherra en hann hefur nýlega lagt niður sérstaka stjórn yfir þeirri stofnun þrátt fyrir að bundið sé í lög að það eigi að vera stjórn yfir stofnuninni. Hann sagði að vísu eða upplýsingafulltrúi hans þegar hann var spurður að ráðherrann ætlaði ekki að hafa bein afskipti af stofnuninni. Ef það er rétt virðist honum takast það í tilfelli ÁTVR en eigi eitthvað erfiðara með það þegar kemur að bönkunum.

Hvað sem því líður er komin nokkur reynsla af þessari stofnun og hún er ekki góð því að það liggur fyrir að á þeim stutta tíma sem stofnunin hefur verið við lýði hefur hún farið á skjön við markmið laga um Bankasýsluna. Er ég þá að vísa í það, virðulegi forseti, sem kemur fram í 3. mgr. 1. gr. laganna um Bankasýsluna. Þar segir, með leyfi forseta:

„… tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.“

Þá er ég að vísa til þess að í Vestia-málinu, sem við ræddum í þessari viku og munum halda áfram að ræða hér vegna þess að því er ekki lokið, hreinlega samþykkti Bankasýslan og fékk að vita það áður en Landsbankinn braut allar verklagsreglur með sölu á sex stórfyrirtækjum og í rauninni fleirum yfir til Framtakssjóðsins, að farið væri á skjön eða öllu heldur þvert á þær verklagsreglur sem bankinn sjálfur hafði undirgengist. Það var gert með vitund og þar af leiðandi samþykki Bankasýslunnar, því að eins og komið hefur fram í umræðunni kynntu forsvarsmenn Landsbankans svo sannarlega þennan gjörning fyrir Bankasýslunni. Þar rækti Bankasýslan ekki hlutverk sitt, eins og kemur fram í 4. gr. laganna um verkefni hennar, staflið c: „Að hafa eftirlit með framkvæmd eigendastefnu ríkisins eins og hún er á hverjum tíma.“

Í eigendastefnunni kemur skýrt fram á bls. 8, með leyfi forseta:

„Fjármálafyrirtæki skulu koma sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni, svo sem endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja, úrlausn skuldavanda einstaklinga, sölu eigna o.fl. Mikilvægt er að slíkir ferlar séu skilvirkir og gagnsæir og birtir á heimasíðum fyrirtækjanna.“

Þessir verkferlar voru til í tilfelli Landsbankans en með samþykki Bankasýslunnar var þessum verkferlum öllum hent út í hafsauga á meðan fyrrnefnd kippa af stórfyrirtækjum var seld til Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna sem er í rauninni ekki Framtakssjóður lífeyrissjóðanna lengur því að væntanlega er Landsbankinn orðinn stærsti einstaki eigandi Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna því að hann mun eiga eftir þessi viðskipti, þar sem færa má rök fyrir því að Landsbankinn hafi selt sjálfum sér þessa kippu af fyrirtækjum, 30% í Framtakssjóðnum. Hann fékk sem sagt 19,5 milljarða fyrir söluna frá lífeyrissjóðnum en greiðir inn í Framtakssjóðinn 18 milljarða og lofar 1,5 milljörðum í meðgjöf með Húsasmiðjunni og Plastprenti.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að við eigum eftir að ræða þetta sérstaklega, þ.e. aðkomu ríkisins inn á samkeppnismarkað, því að við erum að sjá ríkisbankann og lífeyrissjóðina fara inn á samkeppnismarkaðinn, taka fyrirtæki sem voru mjög skuldsett, afskrifa allar skuldir þeirra. Þannig mæta þau og keppa við fyrirtæki sem fóru ekki jafngeyst, sýndu meiri ráðdeild og skynsemi. Það er augljóst að þeim fyrirtækjum verður núna refsað fyrir ráðdeildina og skynsemina því að komið hefur fram hjá forsvarsmönnum Framtakssjóðsins að hann ætli að eiga þessi fyrirtæki sem er búið afskrifa skuldir hjá í fjögur ár og það getur enginn keppt við fyrirtæki sem eru studd og í rauninni á ábyrgð banka og lífeyrissjóða.

Á þeim stutta tíma sem Bankasýslan hefur verið til sjáum við að hún hefur ekki fylgt eftir markmiðum laganna, hún hefur ekki fylgt eftir eigendastefnunni og enginn hefur þrætt fyrir þetta, ekki einu sinni forsvarsmaður Bankasýslunnar, ef undan er skilinn þó einn aðili sem hefur reynt að þræta fyrir hið augljósa og berjast gegn staðreyndum í þessu máli og það er hæstv. fjármálaráðherra. Var athyglisvert í utandagskrárumræðunni um þessi viðskipti, Vestia-viðskiptin, að enginn varði þau viðskipti, ekki einn einasti stjórnarþingmaður og því síður stjórnarandstöðuþingmaður, ef undan er skilinn sá þingmaður sem gegnir embætti hæstv. fjármálaráðherra.

Nú kynni einhver að segja að fleira sé í lögunum um Bankasýsluna en bara þessir hlutir þó að þetta sé það stærsta. Við skulum fara aðeins yfir það, virðulegi forseti, hvað er í lögunum. 1. gr. er um markmið og gildissvið, 2. gr. er um stjórn stofnunarinnar, 3. gr. er um forstjórann, 4. gr. er um verkefnin, 5. gr. er um samkeppnissjónarmið, 6. gr. er um hæfisskilyrði, það á að vísu um starfsmennina hjá Bankasýslunni, 7. gr. er um valnefnd. Það er sérstök nefnd sem er hugsuð til að finna gott fólk til að vera í bankaráði og vera fulltrúi ríkisins í bankaráðum hvort sem ríkið er í meiri hluta eða minni hluta. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þetta er eitthvað sem er auðvelt að gera og við getum haft slíkar valnefndir og svona reglur án þess að vera með sérstaka stofnun utan um valnefndirnar. Það er meira að segja hægur vandi og engin ástæða til að eyða hundruðum milljóna til að halda utan um þessa hluti. Þá er 8. gr. um skýrslugjöf, 9. gr. um lok starfseminnar og loks 10. gr. um gildistöku.

Virðulegi forseti. Þetta er bara dæmi um það sem oft gerist að menn búa til stofnanir sem við þurfum ekki á að halda. Síðan þegar þær verða til gerist það að þær reyna að sanna tilvist sína. Þessi stofnun er engin undantekning. Ég held að það sé í rauninni ekkert dæmi um ríkisstofnun sem hefur ekki viljað halda í sína tilvist. Einu dæmin sem ég man eftir um aðila í stjórnum ráða og nefnda stofnana sem lagt hafa til að þær yrðu lagðar niður var þegar ég lagði til að Menningarsjóður útvarpsstöðva yrði lagður niður en ég var þar í stjórn. Sama gerði Árni Sigfússon, núverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, þegar hann var formaður æskulýðsráðs lagði hann til að það yrði lagt niður.

Almenna reglan er sú að sérstaklega starfsmenn og yfirmenn viðkomandi stofnana og oftar en ekki stjórnarmenn reyna að gera hlut stofnunar sem mestan og reyna að finna röksemdir fyrir því að halda stofnuninni áfram og það er bara eðlilegt og mannlegt. En það breytir ekki þeirri staðreynd að núna stöndum við þannig að við þurfum að straumlínulaga ríkiskerfið, við þurfum að fara vel yfir allan ríkisgeirann og meta hvað það er sem við þurfum á að halda, hvaða markmiðum við viljum ná, hvaða þjónustu við viljum halda uppi og reyna að vernda þá þjónustu. Þá er ég að vísa í heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustuna, menntamálin og annað slíkt sem við viljum halda uppi. Annað verður að víkja.

Ætli auðveldasti niðurskurðurinn af öllu sé ekki að leggja niður Bankasýsluna? Það er algjörlega ljóst að við getum notað þær 250–300 milljónir sem eiga að fara til hennar í mjög þarfa hluti. Það er alveg ljóst að alls staðar í kerfinu er þörf fyrir 250–300 milljónir, það vantar milljónir alls staðar í kerfinu og þá er ég að vísa í að það munar um hverja einustu milljón.

Virðulegi forseti. Ég held að auðveldasti niðurskurðurinn sem hægt er að fara í fyrir þessi fjárlög sé að leggja niður Bankasýslu ríkisins. Ef stjórnarmeirihlutinn treystir sér ekki í það og setur forganginn þannig að vilja hafa algjörlega óþarfastofnun utan um í rauninni einn eignarhlut í Landsbankanum — og ætti sú stofnun að heita Landsbankasýsla Íslands en ekki Bankasýsla sem hefur brugðist svo hrapallega eins og allir sjá sem horfa á það af einhverri sanngirni — þá er mjög illa komið fyrir þeirri ríkisstjórn og þar af leiðandi þjóðinni. Ef þetta er forgangurinn, virðulegi forseti, að eyða hundruðum milljóna í óþarfastofnun utan um eignarhlut í einum banka og svo minni hluti í tveim öðrum bönkum, þá erum við í mjög alvarlegum málum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frumvarpi verði vísað til viðskiptanefndar og vonast til að í þeirri erfiðu vinnu sem fram undan er í fjárlögunum berum við gæfu til að ná saman um þetta þjóðþrifamál, að leggja niður óþarfastofnun, Bankasýslu ríkisins.