139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[15:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar mjög svo jákvæðu umræður. Ég heyri ekki betur en að allir flokkar gefi út þau skilaboð að þeir vilji skoða breytingar. Flokkarnir senda kannski að einhverju leyti misvísandi sterk skilaboð en þau eru öll á sömu bókina lærð, þ.e. skilaboðin eru: Við eigum að skoða það að taka upp meiri stýringu í kerfinu, einhvers konar tilvísanakerfi. Það er mjög gott að hafa náð því hér skýrt fram.

Ég vil líka fá að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir mikla jákvæðni í garð þessa máls. Hæstv. ráðherra heldur áfram með þá vinnu sem búið var að setja af stað og segir að líklega muni nefndin skila af sér um næstu mánaðamót, nefndin sem var sett til að koma með hugmyndir um hvernig hægt væri að koma á tilvísanakerfi á Íslandi.

Ég heyri líka að flestir hér eru sammála um að það taki tíma að koma nýja kerfinu á. Það hafa verið nefnd 10–15 ár. Ég tel að hægt sé að koma á þessu nýja kerfi á 10 árum en það krefst þess þá að menn séu einbeittir í því að koma kerfinu í gagnið, það sé góður pólitískur vilji. Það er rétt sem hér hefur komið fram, það þarf að fjölga heimilislæknum um líklega 20–30 til að geta annað auknum þunga á heilsugæsluna. Til þess að hægt verði að ná upp þessum fjölda þarf að vera með sérstaka hvata til að læknanemar velji þessa sérgrein, heimilislækningar. Það þarf að gera allt starfsumhverfi á heilsugæslunni lokkandi og spennandi fyrir læknanemana.

Ég vil brýna hæstv. heilbrigðisráðherra í að hraða þessari vinnu. Ég heyri að það eru þrjár mögulegar aðferðir við að koma á þessu kerfi. Ég vil ekki gera upp á milli þessara aðferða hér en þó tel ég að það væri frekar létt að koma dönsku leiðinni á miðað við það kerfi sem við búum við í dag.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég sé að við viljum sameinast um að nýta almannafé betur með góðri þjónustu og hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) áfram.