139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[16:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umfjöllunina og ábendingarnar sem voru lagðar í þetta mál sem ég veit að hann þekkir vel. Auðvitað ber frumvarpið með sér að verið er að flytja frumvarp til laga um nýtt svið, nýja grein sem ekki hefur átt heimili í núgildandi lögum. Við ætlum þessari atvinnugrein að stækka og vaxa og verða enn þá mikilvægari í íslensku atvinnulífi og íslenskri matvælaframleiðslu. Hvar hún kemur inn á milli núgildandi laga, hvort það eru skipulagslög eða lög um matvælaframleiðslu og matvælaeftirlit o.s.frv.

Mér finnst hárrétt, eins og hv. þingmaður minntist á, að þetta verði vandlega skoðað í nefndinni. Ég bendi á að menn mega hafa að markmiði að koma á lagaumgjörð sem styður þessa atvinnugrein, ég held að það sé mikilvægt. Sjálfsagt að draga fram skipulagslegu hliðar málsins. Sveitarfélögin fara með skipulagsmálin og leyfið er ekki endanlega veitt fyrr en allt er komið til skila í þeim efnum. Ég tek undir með hv. þingmanni hversu mikilvægt það er að greinin fái sér lagaumgjörð og ramma þannig að hún geti lagalega séð vaxið og dafnað.