139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur skapast mikil umræða um það mál sem ég tók til umræðu. Ég held að það sé alveg ljóst að það er mjög áríðandi í ljósi allra þeirra dæma sem hér hafa verið rakin að forsætisnefnd taki þetta mál til alvarlegrar skoðunar. Ég held að það sé líka ljóst af þeirri reynslu sem við höfum orðið fyrir hér að það þarf að breyta þingsköpum, það þurfa að koma einhver verkfæri inn í þingsköp fyrir þingmenn til að bregðast við málsmeðferð sem þessari. Ég finn það á göngum þingsins, þó að ekki hafi margir hv. þingmenn úr öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum tekið til máls undir þessum lið finn ég það á þingmönnum að þeim er misboðið. Auðvitað er þinginu misboðið við framferði sem þetta, virðulegi forseti. Við þetta verður ekki búið, við hljótum að gera þær kröfur að framkvæmdarvaldið standi reikningsskil gjörða sinna hér á þinginu gagnvart þingmönnum.