139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[13:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það gætir nokkurs samhljóms í málflutningi enda höfum við báðir, ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, nokkra reynslu af starfsemi þessara orkufyrirtækja. Ég bæði sem stjórnarmaður í Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur og hann sem stjórnarformaður Orkuveitunnar á sinni tíð. Það hefur hins vegar verið vandamál að við höfum ekki náð fullnægjandi sátt um það með hvaða hætti hægt sé að koma fjárfestingum í orkuvirkjun fyrir stóriðju úr höndum og ábyrgð skattgreiðenda yfir til einkaframtaksins. Þar held ég að við eigum enn þá eftir að finna einhverja leið sem breiðari sátt gæti verið um.

Ég vil þess vegna, af því að við erum að ræða þessi ábyrgðarmál, halda til haga því sem menn hafa reynt víða. Landsvirkjun hefur til að mynda tekið þátt í útboðum þar sem slík aðferðafræði hefur verið uppi þar sem menn bjóða út slík verkefni og boðið er í þau á jafnræðisgrundvelli. Það er tilskilið í skilmálunum að eftir einhverja áratugi þegar afskriftatími viðkomandi virkjunar er liðinn gangi mannvirkin til ríkisins og þannig eignist almenningur þessa innviði eftir að áhættunni er lokið. Eftir að þeir sem tóku áhættuna hafa tekið eðlilegan hagnað til sín þá gangi þetta aftur til almennings sem þá getur boðið það út aftur til einhvers tíma ef mönnum þykir svo við horfa og það vera hagfellt. Ég held að slíkt fyrirkomulag treysti betur fullvissu almennings að hann ætti eftir sem áður auðlindina og fengi eftir sem áður innviðina í sínar hendur. (Forseti hringir.) Kynslóð barnanna okkar þó í það minnsta.