139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[13:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum lög er snerta ríkisábyrgð á Landsvirkjun, því glæsilega fyrirtæki sem hefur verið byggt upp á undangengnum áratugum með miklum glæsibrag. Þessi breyting á lögum byggist á ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um að ótakmarkaðar eigendaábyrgðir séu ekki í fullu samræmi við EES-samninginn um ríkisaðstoð. Þar er kveðið á um að gjald Orkuveitunnar vegna þessara ábyrgða þurfi að vera hærra en verið hefur og gert er ráð fyrir, verði frumvarpið að lögum, að tekjuauki ríkissjóðs vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til að beinu undirlagi EFTA geti orðið allt að 500 millj. kr. á ári sem Landsvirkjun þyrfti að greiða í sameiginlega sjóði landsmanna vegna ábyrgðanna. Ég held að hér sé um mjög jákvætt mál að ræða. Almenningur í landinu hefur greitt háa reikninga vegna ábyrgða, m.a. á bankakerfinu, þó að okkur greini á um hversu miklar byrðar almenningur eigi að bera vegna falls einkabanka.

En við ræðum um fyrirtæki sem hefur verið í ríkiseigu um árabil, fyrirtæki sem hefur skapað þúsundir starfa á Íslandi á undangengnum árum og áratugum. Það eru ekki mörg ár síðan hæstv. fjármálaráðherra sem þá var í stjórnarandstöðu setti verulega út á þær miklu framkvæmdir sem Landsvirkjun stóð að, m.a. á Austurlandi, sem sköpuðu mörg hundruð störf í þeim fjórðungi. Mikið var gert út á gagnrýni vegna þeirra framkvæmda. Þá er ég að tala um byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Nú hefur komið í ljós og nýr forstjóri Landsvirkjunar hefur staðfest að ef Landsvirkjun þyrfti ekki að borga arð til eigenda sinna næstu tíu árin og ekki að fara í frekari framkvæmdir yrði fyrirtækið skuldlaust að tíu árum liðnum og gæti í framhaldi af því borgað til ríkisins 25 milljarða kr. í formi arðs á hverju einasta ári. Þessa 25 milljarða kr. mætti alveg nota, frú forseti, í því árferði sem nú er. Þeir dygðu m.a. langleiðina í að reka Landspítala – háskólasjúkrahús. Ég er því mjög ánægður með það hvernig Landsvirkjun hefur verið rekin og hversu gríðarlega miklum framfarasporum fyrirtækið hefur stuðlað að á undangengnum áratugum í atvinnusköpun og verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Við þurfum nú á fyrirtækjum sem þessu að halda sem skapa störf og fjármuni og minnka þar af leiðandi atvinnuleysið, það mikla böl sem blasir við okkur öllum.

Ég var að koma af fundi rétt áðan með forsvarsmönnum Fjarðabyggðar þar sem farið var yfir skýrslu um niðurskurð til Heilbrigðisstofnunar Austurlands upp á 467 millj. kr. En það frumvarp sem við ræðum hér er hækkun á greiðslum frá Landsvirkjun vegna ríkisábyrgðar um 500 millj. kr. á ári. Það sýnir okkur hvað öflug og stöndug fyrirtæki geta lagt verulega til ríkisins á hverjum tíma. Þess vegna höfum við mörg talað fyrir því að halda áfram að framkvæma í samfélaginu og fjölga störfum til að við þurfum ekki að skera eins mikið niður og raun ber vitni.

Ég vil við þessa 1. umr. fagna því að þetta mál er komið fram, að Landsvirkjun greiði sanngjarnt gjald af þeim ábyrgðum sem ríkið og þar með talinn almenningur veitir fyrirtækinu. Ég tek líka undir með þeim sem hafa talað fyrir því á undangengnum vikum og mánuðum að nauðsynlegt sé að við höldum áfram framkvæmdum. Ég er ekki endilega að tala um að virkja okkar glæsilegustu náttúruperlur. Til staðar eru einfaldlega tilbúin verkefni sem hægt er að ráðast í og verður vonandi gert á næstunni og mun störfum fjölga allverulega í kjölfarið.

Um daginn var virkilega ánægjulegt að heyra að byggja ætti við álverið á Reyðarfirði kerverksmiðju sem mundi skapa 70 varanleg störf á ári hverju í framtíðinni. Þetta er mjög ánægjuleg þróun og væri ekki að gerast nema menn horfðu og færu í stórar framkvæmdir á sviði atvinnumála sem styrktu Landsvirkjun til lengri tíma litið, styrktu svæðið á Austurlandi og síðast en ekki síst Ísland sem útflutningsland vegna þess að við fáum gríðarlega háar upphæðir í formi gjaldeyristekna af sölu framleiðslu álversins í Reyðarfirði. Þó að okkur hæstv. fjármálaráðherra hafi greint á í gegnum tíðina um atvinnuuppbyggingu af ýmsu tagi getum við ekki litið fram hjá því að sú atvinnuuppbygging sem menn börðust fyrir á sínum tíma á Austurlandi er að skila sér í formi mörg hundruð starfa í samfélagi okkar sem skila miklum tekjum í ríkissjóð og miklum útflutningstekjum í formi þeirrar framleiðslu sem þessi vinnustaður stendur fyrir.

Ég lýsi yfir ánægju með að þetta frumvarp er komið fram. Ég tala fyrir því að Landsvirkjun verði áfram öflugt fyrirtæki og að stjórnvöld eigi með skynsamlegum hætti að styðja við og efla atvinnuuppbyggingu í landinu. Landsvirkjun hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi fyrir því og þótt ég hafi nefnt orðið ál nokkrum sinnum í umræðunni vil ég líka tala fyrir því að önnur nýsköpun geti átt sér stað í landinu. En eins og hæstv. ráðherra veit trúlega þá fer heilmikil nýsköpun fram í tengslum við þessa vinnustaði hjá meðalstórum og smærri fyrirtækjum þannig að allt helst þetta í hendur.

Ég lýsi enn og aftur yfir ánægju með þetta mál og sem fulltrúi Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd munum við skoða það gaumgæfilega og fara yfir alla þætti þess. Vonandi munum við klára málið fyrir áramót þannig að það geti orðið að lögum strax á næsta ári svo að Landsvirkjun fari að greiða sanngjarnt gjald vegna þeirra ábyrgða sem ríkissjóður og almenningur veitir fyrirtækinu. Það verður eins og áður sagði um hálfur milljarður á ári og munar um minna.

Ég vænti þess, frú forseti, að Landsvirkjun muni um ókomna tíð halda áfram umsvifum sínum, líka í formi nýsköpunar í landinu, vegna þess að fyrirtækið hefur skapað þúsundir starfa á undangengnum árum og áratugum vítt og breitt um landið. Við búum sem betur fer að því í dag.