139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[18:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Það er á þskj. 213, 196. mál þessa þings. Með frumvarpi þessu er lagt til að tekinn verði upp sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, bankaskatt getum við kallað hann, sem hluti af sérstökum ráðstöfunum í ríkisfjármálum og hluti af aðgerðum tengd fjármálasviðinu og þeim hlutum sem þar hafa gerst.

Markmið frumvarpsins er einkum tvíþætt. Það er í fyrsta lagi að afla ríkinu tekna til að mæta ekki síst þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins en reiknað er með að tekjur ríkissjóðs verði nálægt 1 milljarði kr. af þessum umrædda skatti. Í öðru lagi er með frumvarpi þessu leitast við að hvetja fjármálafyrirtæki til að fjármagna sig með öruggari hætti, þ.e. að vera með hátt eigið fé og tryggð innlán. Sá skattur sem hér er lagður til er í samræmi við þróunina sem á sér stað í nágrannalöndum okkar mörgum sem hafa tekið upp eða eru að undirbúa að taka upp sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki þar sem fjárhæð skattsins tekur mið með einhverjum hætti af efnahagsreikningi viðkomandi aðila.

Frumvarpið nær til allra fjármálafyrirtækja sem hafa fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki eða verðbréfafyrirtæki hjá Fjármálaeftirlitinu. Jafnframt eru útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem taka við innlánum eða stunda verðbréfaviðskipti hér á landi skattskyld samkvæmt frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að skattstofninn sé heildarskuldir viðkomandi fjármálafyrirtækis eins og þær koma fram á skattframtali að frádregnum þeim hluta tryggðra innstæðna sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiðir út ef kemur til greiðsluskyldu hans. Lagt er til að gjaldhlutfall skattsins verði 0,045%.

Frá skattálagningunni eru nokkrar undantekningar. Sú veigamesta er að fjármálafyrirtæki með skattstofn undir 5 milljörðum kr., að teknu tilliti til heimils frádráttar, eru undanþegin skattinum. Enn fremur er lagt til að skatturinn leggist ekki á fjármálafyrirtæki sem tekin hafa verið til slitameðferðar og hvorki á Byggðastofnun né Lánasjóð sveitarfélaga.

Þar sem skattstofninn er heildarskuldir viðkomandi fjármálafyrirtækis má ætla að þrír stærstu viðskiptabankarnir komi til með að greiða langstærsta hluta skattsins, um 4/5 hluta hans. Þó nokkur fjöldi sparisjóða og verulegur hluti verðbréfafyrirtækja hefur lægri heildarskuldir en 5 milljarða kr. og kemur því ekki til með að greiða sérstakan skatt samkvæmt frumvarpi þessu. Þótt skattinum sé ætlað að vera bein tekjuöflun fyrir ríkissjóð, a.m.k. fyrst um sinn, mun með batnandi afkomu ríkissjóðs þegar fram í sækir verða skoðað hvort tekjur af umræddum skatti eigi ekki að renna í sérstakan viðlagasjóð sem verði trygging gegn mögulegum fjármálaáföllum í framtíðinni. Þess vegna er lagt til að lögin komi til endurskoðunar innan árs frá gildistöku þeirra. Sömuleiðis af þeim sökum að löggjöf og réttur í þessum efnum er í mótun í nálægum löndum og það er að sjálfsögðu rétt og skylt af okkar hálfu að fylgjast með því hver framvindan verður og hvernig útfærslur verða eftir því sem þær koma til á næsta ári. Reiknað er með að í nokkrum löndum komi slíkir skattar til sögunnar á næsta ári, en í Svíþjóð og nokkrum öðrum löndum hefur slíkt þegar verið innleitt.

Frumvarpið miðar að því að lögin öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011 vegna tekjuársins 2010, enda eru þær tekjur sem af frumvarpinu hljótast, verði það að lögum, forsendur fjárlagafrumvarpsins eins og fleira sem hefur verið á dagskrá í dag.

Álagning og eftirlit með skattheimtunni verður í höndum embættis ríkisskattstjóra en innheimtan mun fara fram samhliða álagningu opinberra gjalda á lögaðila. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að það hafi í för með sér mjög óveruleg útgjöld fyrir ríkissjóð og tekjur eins og áður sagði af stærðargráðunni 1 milljarður kr.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarp þetta verði sent til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari.