139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

fjárveiting til meðferðarheimilis í Árbót.

[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ætli það sé nú ekki vænlegra að reyna að leiða erfið mál af þessu tagi til lykta með samkomulagi ef það býðst frekar en að það fari í málaferli og illindi? Höfum nú í huga hversu viðkvæmur sá málaflokkur er sem hér á í hlut þannig að að sjálfsögðu er það sjónarmið ef hægt er að laða fram lausn á máli af þessu tagi með sanngjörnu samkomulagi. (BJJ: Með réttu bótunum.) Niðurstaðan varð að það tókst í þessu tilviki, unnið af lögfræðingum. Að því komu lögfræðingar bæði úr félagsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Málið var aldrei á því stigi að það þyrfti að leita álits ríkislögmanns því að það var ekki komið upp neitt bótaálit eða annað í þeim dúr. Hér var einfaldlega um það að ræða að ljúka samningsbundnum samskiptum með þeim hætti sem heppilegast er ef það tekst, (Gripið fram í.) að klára það með samkomulagi.

Áhyggjur okkar hins vegar í janúarmánuði sneru að því ef þarna væri enn eina ferðina verið að stofna til verulega aukins kostnaðar vegna þess að uppbygging margra meðferðarheimila á undanförnum árum, ef menn kynna sér þá sögu, hefur ekki verið (Forseti hringir.) útlátalaus fyrir ríkið þar sem hvert heimilið á fætur öðru hefur verið sett á stofn og sum komust aldrei í rekstur áður en þeim var lokað aftur. Það var ástæða til þess að biðja um faglegan rökstuðning og fá öll gögn fram í málinu og það var það sem ég (Forseti hringir.) var að biðja um í einkabréfi mínu til félagsmálaráðherra áður en lengra yrði haldið. Það er svo önnur saga hvernig sá einkapóstur milli okkar félagsmálaráðherra er allt í einu kominn í blöðin, að því er virðist í gegnum Barnaverndarstofu. (Gripið fram í.) Það er örugglega hennar framlag til þess að reyna (Forseti hringir.) að skapa sátt og frið um þennan málaflokk.