139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

sala Sjóvár.

[15:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér þykja þetta nú helst til rýr svör. Það er fullkomlega útilokað annað en að hæstv. ráðherra, sem nefndi réttilega að það er búið að leggja mikla fjármuni í þetta, hafi fylgst með þessu máli.

Það hefur komið fram að framkvæmdastjóri annars eignaumsýslufélagsins á vegum Seðlabankans lýsti sig hlynntan þessari sölu og mæltist til þess við seðlabankastjóra að hann mundi ganga frá sölunni. Miðað við heimildir var undirskrift seðlabankastjórans það eina sem eftir var. Hér er ekki um neina litla hagsmuni að ræða, hér er um að ræða milljarðatugi, í það minnsta gríðarlega stórar upphæðir sem við erum hér að véla um, hagsmuni ríkisins. Hæstv. fjármálaráðherra verður að svara því skýrt hvað er á ferðinni. Hvers vegna er það ekki klárað eftir að það er búið að fara í gegnum þetta opna söluferli? Það er útilokað (Forseti hringir.) annað en að ábyrgur hæstv. fjármálaráðherra, sem ber ábyrgð á fjármunum ríkissjóðs, þekki til þess hvað þarna er í gangi. Ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að svara því skýrt hvað hér er á ferðinni.