139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

skattaleg staða frjálsra félagasamtaka.

140. mál
[15:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Hún er góð og gild og skiljanleg. Það er reyndar þannig engu að síður og rétt að halda því til haga að frjáls félagasamtök njóta ýmissa skattfríðinda umfram önnur félagsform. Þannig eru almennt félög, sjóðir og stofnanir, þar með taldar sjálfseignarstofnanir sem ekki reka atvinnustarfsemi, einnig almenn félög og sjálfseignarstofnanir sem reka vinnu en verja þá hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það eina markmið samkvæmt sínum samþykktum, undanþegin skattskyldu samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Skilyrðin eru þau að þessi undanþága nær til hvers konar vinnu og þjónustu, tryggingabóta og styrkja, endurgjalds til rétthafa hugverka, verðlauna, vinninga og hagnaðar af sölu annarra eigna en hlutabréfa og fleira.

Þessi undanþága nær hins vegar ekki til vaxta, affalla, verðbóta, gengishagnaðar og arðs. Góðgerðastarfsemi er undanþegin virðisaukaskattsskyldu enda sé skilyrðið að allur hagnaður af henni renni til líknarmála. Þessi undanþága frá útskatti nær til hluta eins og merkjasölu, basarsölu, söfnunar, sölu notaðra muna o.s.frv. Einnig nær undanþágan til ýmissar starfsemi sem félagasamtök stunda að sjálfsögðu og er undanþegin skatti, svo sem heilbrigðisþjónusta, íþróttastarfsemi, kennsla, menningarstarfsemi, rekstur sumarbúða, happdrættis, getraunastarfsemi og allt þetta. Þessar víðtæku skattundanþágur eru til staðar.

Það liggur fyrir skýrsla sem nefnd vann, skipuð af félags- og tryggingamálaráðuneytinu, og hafði það hlutverk að fara yfir kosti þess og galla að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana og jafnframt skoða þá hvort ástæða væri til að setja heildarlöggjöf um starfsemi almannaheillasamtaka þannig að slík samtök fengju skýrari réttarstöðu og rekstrarumhverfi. Niðurstaða nefndarinnar var einmitt sú að leggja til að hafist yrði handa um smíði löggjafar um félagasamtök og samhæfa sem sagt þar með löggjöf um þessa aðila og lög um sjálfseignarstofnanir. Þá er komið auðvitað miklu skýrara lagaumhverfi til að takast á við m.a. skattalega meðferð þessara aðila þegar starfsemi þeirra hefur verið samræmd að þessu leyti til og byggir á heildstæðri löggjöf. Það er alveg sjálfgefið og gott ef ekki er einmitt komið komið inn á það sérstaklega í skýrslunni að þessu tengt sé ástæða til að endurskoða skattumhverfi félagasamtaka. Það má því segja að næsta skref sé frekar í höndum félags- og tryggingamálaráðherra en fjármálaráðuneytisins en við erum að sjálfsögðu reiðubúin til þátttöku í því starfi hvað varðar þá þætti sem snúa að skattalegum málum og rekstrarumhverfi þessara aðila almennt. En ég held að nauðsynlegt næsta skref í þessu sé það sem snýr að löggjöfinni og það eigi að setja þá vinnu af stað. Samhliða geta menn skoðað hvort ástæða er til að gera breytingar á skattamálunum. Væntanlega verður miklu auðveldara að ganga frá og útfæra þær reglur þegar komin er ein heildstæð löggjöf utan um þennan málaflokk.