139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

skattaleg staða frjálsra félagasamtaka.

140. mál
[15:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin og hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir athugasemd hans um þetta mál.

Ég vil geta þess sérstaklega að það virðist ekki liggja ljóst fyrir undir hvaða ráðherra þessi löggjöf um frjáls félagasamtök eigi að falla. Þegar ég var með aðra fyrirspurn, sem var númer þrjú á dagskránni í dag, sem varð af óviðráðanlegum aðstæðum að fresta, var ég einmitt að spyrja um slíka heildarlöggjöf varðandi frjáls félagasamtök. Þá var mér bent á það hér í þinginu að ég ætti að beina henni til efnahags- og viðskiptaráðherra en ekki til velferðarráðherra þó að samskiptin í stjórnsýslunni virðist fyrst og fremst fara í gegnum ráðuneyti velferðarmála frekar en efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

Það er staðreynd að skattastaða frjálsra félagasamtaka á Íslandi hefur frekar farið versnandi á síðustu áratugum en hitt. Undanþágur voru stórlega skertar með afnámi ákvæða um frádrátt af skattskyldum tekjum einstaklinga vegna gjafa til góðgerðarfélaga árið 1979. Árið 1996 ákvað Alþingi líka að félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt og síðan árið 2004 var ákveðið að setja erfðafjárskatt á gjafir til líknarfélaga. Þetta er eitthvað sem ég tel að við eigum að taka til baka.

Þegar borið er saman við önnur lönd kemur í ljós að undanþágur er að finna í Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku og ESB á þeim þremur sköttum sem ég hef bent hér á. Ég held að allt bendi til þess að mjög mikil þörf verði á þessari tegund af félögum, af frjálsum félagasamtökum, í samfélagi okkar þegar ríkið getur ekki tekið á sig meiri byrðar, er frekar að skera mjög massíft niður en hitt. Þá þarf að treysta stoðir frjálsra félagasamtaka þannig að þau geti tekið við slakanum í heilbrigðismálum, (Forseti hringir.) í félagsmálum, aðstoðað unga og aldraða, hjálpað fátækum og tekið vaxandi þátt í þróun og viðgangi lýðræðis. Þetta er þróun sem við sjáum í samanburðarlöndunum og ég tel að við eigum að tryggja að svo verði líka hér.