139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

öryggi á þjóðvegi 1 undir Eyjafjöllum.

171. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð er kunnugt urðu miklar náttúruhamfarir í vor þegar Eyjafjallajökull gaus. Við sjáum enn ekki fyrir endann á þeim miklu breytingum á náttúrunni sem fylgdu í kjölfar gossins. Við horfum nú upp á að mikill aurframburður er í ám undir Eyjafjöllum, það mikill að menn hafa vart við að moka upp úr árfarvegum sem eru þröngir, enda hefur þrengt verulega að þeim á undanförnum árum og áratugum. Ljóst er að taka þarf ákvarðanir um hvernig eigi að bregðast við þessum vanda með varanlegum hætti. Spurning mín til hæstv. samgönguráðherrra er hvort einhverjar slíkar ákvarðanir hafa verið teknar um það, annars vegar hvort halda eigi áfram að moka þessar ár upp, en þær eru aðallega Svaðbælisá, Holtsá og Bakkakotsá, eða hvort grípa eigi til annarra ráðstafana svo sem að breyta vegstæði.

Jafnframt hafa kviknað spurningar um hvort ekki sé nauðsynlegt að vekja athygli á þeirri hættu sem hugsanlega getur skapast í miklum leysingum, með einhvers konar merkingum við árnar og brýrnar yfir þær

Hæstv. ráðherra hefur sett sig ágætlega inn í málin. Komið var á fót samráðshóp ráðuneytisstjóra sem fylgjast á með málum undir Eyjafjöllum. Nú liggur eldgosið að sjálfsögðu niðri en þótt atburðinum sé lokið má samt ekki sofna á verðinum. Við verðum að fylgja þessu máli til enda og bregðast við þeim miklu breytingum sem orðið hafa á náttúrunni.

Síðan er ég með aðra fyrirspurn, er tengist sama máli, varðandi Markarfljót og áhrif þess á dýpkunina í Landeyjahöfn. Það er mikilvægt að alþjóð sé kunnugt um hvaða áætlanir eru uppi hjá hæstv. ráðherra samgöngumála um það. Eins og menn vita gerist það oft að það verður asahláka og mikill vatnsflaumur í ánum og þegar árfarvegir er orðnir fullir af ösku og auri úr eldgosinu erum við strax komin í vandræði.