139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

aðgerðir til að fyrirbyggja tjón á jörðum bænda undir Eyjafjöllum.

170. mál
[17:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð er kunnugt urðu miklar náttúruhamfarir við það að Eyjafjallajökull gaus í vor og talsvert tjón hefur orðið á jörðum bænda. Nú þegar gosi er lokið er ljóst að tjón á jörðum bænda stendur í raun enn yfir. Árfarvegir eru fullir af gosefnum sem berast fram með ánum og þegar árfarvegurinn hækkar og fyllist verður meiri raki í aðliggjandi jörðum og það verður þarna tjón og jafnvel einhvers konar vandræði. Þess vegna hlýtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fer með landbúnaðarmálin hér á landi að hafa einhver áform um það með hvaða hætti eigi að fyrirbyggja tjón á jörðum bænda.

Vegagerðin hefur sinnt þeim hlutum er snúa að samgöngumannvirkjum. Landgræðslan hefur jafnframt komið að málum varðandi fyrirhleðslur, en ég hef áhyggjur af því að ekki sé horft heildstætt á verkefnið. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gaf út skýrslu í október 2010, Samantekt um stöðu verkefna og tillögur um aðgerðir vegna eldgosa á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli vorið 2010. Þar kemur fram að a.m.k. tveim jörðum undir Eyjafjöllum stafar ógn af flóðahættu og mikilli ösku, bæjunum Seljavöllum og Önundarhorni. Engar stofnanir hafa það hlutverk að leggja mat á hvort jarðir séu búsetuhæfar. Það er hins vegar nauðsynlegt að mati þeirra sem skrifa þessa skýrslu að meta jarðirnar með tilliti til öryggis, búskapar og ræktunar.

Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til ráðherrans hvernig þessum málum er fylgt eftir í landbúnaðarráðuneytinu vegna þess að það er ljóst að tryggja þarf öryggi þeirra sem velja sér búsetu undir Eyjafjöllum. Eins er lagt til í þessari skýrslu að farið verði yfir framtíðarskipulag byggðar á svæðinu undir Eyjafjöllum. Því er rétt að varpa fram þeirri spurningu með hvaða hætti unnið sé eftir þessum atriðum í skýrslunni. Það hefur verið talsverð umræða um það. Meðal annars barst skriflegt svar frá ráðuneyti samgöngumála um varnargarða en það tengist aðallega samgöngumannvirkjum en þá eigum við bújarðirnar eftir. Það þarf að taka ákvarðanir um hvernig á að verja þessar jarðir. Ef ekki á að verja þær þarf einfaldlega einhver að taka af skarið með það. Því væri gott að fá fram vilja hæstv. ráðherra í málinu og jafnframt koma því á hreint hvort ekki sé örugglega verið að fylgjast með þessum hlutum.