139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

starfsemi og rekstur náttúrustofa.

182. mál
[18:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort við förum vel með tímann með því að rífast um prósentur en þó verð ég að gera það af því að hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega að ég hefði farið óvarlega með tölur. Eins og frumvarpið lítur út samanborið við samþykkt fjárlagafrumvarps ársins í ár þá er um 68% niðurskurð að ræða til þeirrar náttúrustofu sem ég nefndi. Það snýr annars vegar að því að sérstök fjárveiting vegna fuglavöktunar í Þingeyjarsýslum er ekki lengur fyrir hendi og hins vegar hefur ekki komið nein sérstök fjárveiting sem fjárlaganefnd Alþingis hefur veitt síðustu ár. Ef við berum saman þær tölur sem standa núna í frumvarpinu og það rekstrarfé sem ríkið veitir til þessarar stofnunar á þessu ári er einfaldlega ekki hægt að deila um að um er að ræða þennan gríðarlega niðurskurð.

Síðan skulum við vinna að því á vettvangi þingsins að sérstök fjárveiting muni koma til þessara verkefna í gegnum fjárlaganefnd. Þar vil ég taka upp tvö verkefni, þ.e. hina sérstöku fjárveitingu vegna fuglavöktunar og þá sérstöku fjárveitingu sem fjárlaganefnd hefur unnið að á undanförnum árum. Fjárveitinganefndin hefur litið, sama hvar í flokki menn hafa staðið, á náttúrustofur vítt og breitt um landið sem mjög mikilvægar stofnanir í því skyni að auka vitund okkar um nánasta umhverfi og fræðastörf. Þetta hefur líka haft veruleg áhrif á þá staði þar sem stofnanirnar hafa verið starfræktar.

Ég vonast til að við höfum þverpólitískan vilja til að minnka þennan niðurskurð. Hann er allt of mikill eins og hann birtist í fjárlagafrumvarpinu. Ég túlka orð hæstv. ráðherra þannig að hún muni væntanlegu styðja þá tillögu sem kemur frá fjárlaganefnd um að sérstök aukafjárveiting verði áfram til reksturs þessara stofnana þannig að þær geti haldið áfram því merkilega starfi sem þar hefur verið unnið á umliðnum árum.