139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kvaddi mér einkum hljóðs til að vekja athygli á tveimur fréttum í dag, á mbl.is og visir.is, um flutning Markarfljótsósa. Í þeim báðum er fullyrt að sú framkvæmd sé að hefjast, ef ekki þegar hafin. Ég hef verið spurður um þetta sem formaður umhverfisnefndar, bæði innan þings og utan, og haft samband við hæstv. samgönguráðherra, hlustaði reyndar á hann í þinginu í gær.

Staðreyndin er sú að Siglingamálastofnun hefur fengið heimild til að athuga og rannsaka þetta mál, en hugsanleg framkvæmdaáform mundu að sjálfsögðu fara í umhverfismat áður en þau færu af stað. Það er mikilvægt að það komi fram hvað sem mönnum finnst um þessa framkvæmd og hvaða álit sem menn vilja fyrir fram gera sér á henni. Það er þegar farinn í gang áherslumunur um þetta, landeigendur við Markarfljót farnir að kvarta undan því að þetta sé gert án nokkurs samráðs við þá. Það er sem sagt ekki svo. (Gripið fram í: … fund í gær.)

Um það sem hv. þm. Ólöf Nordal og fleiri ræddu áðan er það að segja að þetta mál lítur þannig út, þangað til það verður skýrt betur, að þetta sé gamaldags þjösnapólitík þar sem fagleg sjónarmið í stofnunum eru misvirt og kjördæmahagsmunir þingmannasveitar eða einstakra þingmanna ráða mestu um úrslit mála. Það er mjög mikilvægt að öll gögn komist á borðið í þessu máli, (Gripið fram í.) að ráðherrarnir skýri frá því sem þeir hafa gert og aðhafst í þessu og einstakir þingmenn, þar á meðal hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, sá sem vildi rústa fjárlögin í haust, að hann skýri hvað honum gekk til með því að treysta á Steingrím í vor eins og kemur fram í (Forseti hringir.) því sem haft er eftir honum í Fréttablaðinu.