139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna að það er ekkert ódýrt við það að eiga bíl, það er dýrt, það er bara spurning hversu dýrt. Ef einstaklingar eiga stóra bíla sem þeir þurfa á að halda einhverra hluta vegna kemur það svo sannarlega við budduna, ekki bara í innkaupsverðinu heldur líka í eldsneyti, tryggingum, bifreiðagjöldum og öðru slíku. Ég á hins vegar mjög lítinn bíl þannig að þetta snýr ekki að mér en það er auðvitað fullkomið aukaatriði. Ég held hins vegar að við verðum að tala um þá hluti eins og þeir eru að það er dýrt að eiga bíl á Íslandi.

Ég met það svo, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra taki vel í þau málefnalegu sjónarmið sem komu frá Sjálfsbjörg. Ég treysti því að vilji sé fyrir því að skoða þetta vel í hv. þingnefnd þannig að við förum ekki að setja sérstakar álögur á það fólk sem sannarlega þarf ekki á því að halda. Ég mun beita mér fyrir því eins mikið og ég get að komið verði (Forseti hringir.) í veg fyrir það.