139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:14]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að fara í örstutt andsvar við hv. þingmann. Ég vil segja fyrir það fyrsta að ég er mjög ánægður með frumvarp hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er gott skref í rétta átt eins og hv. þingmaður kom inn á um að minnka losun á koltvísýringi. Reynsla annarra þjóða er sú að til þess að minnka losun er langbest að beita hagrænum hvötum en ekki eins og við gerum að nýta skattsetningarhvatana. Hér er á ferð mikilvægt skref í rétta átt.

Að sjálfsögðu eru álitaefni í þessu máli. Við þurfum að skoða þau vandlega á vettvangi nefndarinnar bæði hvað snertir landsbyggðarvinkil sem hv. þingmaður nefnir og svo metanumræðuna sem aðrir þingmenn hafa rætt. Ég hlakka til að takast á við álitaefnin innan nefndarinnar. Við munum skoða þau en ég vil leggja áherslu á að þetta er gott skref. Við skulum taka þetta skref og sníða af agnúa ef einhverjir eru en sýnum hugrekki að klára málið sem allra fyrst.