139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

219. mál
[18:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem er hefðbundið haustmál allt frá því að samþykkt voru lög á Alþingi á árinu 1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Á hverju ári þarf að festa í lög álagningarhlutfall til að gefa fjármálafyrirtækjum sem bera kostnað af rekstri Fjármálaeftirlitsins til kynna hver ætlaður hlutur þeirra verður á komandi ári. Frumvarp hefur verið lagt fram á hverju haustþingi að fenginni skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, athugun ráðuneytisins á skýrslunni og að fengnu áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila.

Áætlað álagt eftirlitsgjald á yfirstandandi ári er 1.153 millj. kr. en frumvarpið gerir ráð fyrir 1.619 millj. kr. árið 2011 og nemur áætluð hækkun milli ára því 466 millj. kr. eða 40%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári er 1.195 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2011 nemur 1.755 millj. kr. sem er hækkun upp á 560 millj. kr. eða tæp 47%.

Verulegar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 og hefur verið unnið að því á undanförnum missirum að laga starfsemi stofnunarinnar að nýjum aðstæðum. Áfram er unnið að eflingu stofnunarinnar og endurskipulagningu hennar og er í gangi vinna við endurmat á löggjöf um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Með frumvarpinu er álagningarhlutfalli einstakra tegunda eftirlitsskyldra aðila breytt og er gerð skilmerkilega grein fyrir þeim breytingum í athugasemdum með frumvarpinu og fylgigögnum með því.

Í yfirgripsmikilli kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er grein gerð fyrir afstöðu þess ráðuneytis til stöðu Fjármálaeftirlitsins hvað varðar lagaskil á milli sérlaga þeirra sem hér eru til umfjöllunar og fjárlaganna sjálfra. Eins og sjá má af fjárlagafrumvarpinu er þar reiknað með annarri tölu í rekstri Fjármálaeftirlitsins en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Það er afstaða mín að óhjákvæmilegt sé að fara að tillögum Fjármálaeftirlitsins um umfang rekstrarins á næsta ári við núverandi aðstæður. Það er jafnljóst að skýra þarf betur samhengi ákvarðana Fjármálaeftirlitsins um rekstraráherslur og almennar hagstjórnaráherslur stjórnvalda og áherslur á sviði fjármálamarkaðar. Það verður auðvitað verkefni við frekari endurskoðun á sviði þeirra laga sem gilda um starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að lokinni þessari umræðu að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.