139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

dómstólar.

246. mál
[16:39]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998. Í frumvarpinu er lagt til að dómurum við Hæstarétt Íslands verði fjölgað um þrjá og héraðsdómurum verði fjölgað um fimm. Þessi fjölgun er tímabundin að því leyti að gert er ráð fyrir að dómarar í Hæstarétti verði samtals 12 frá 1. janúar 2011 en eftir 1. janúar 2013 verði ekki skipað í embætti hæstaréttardómara sem losna fyrr en þess gerist þörf þar til dómarar í Hæstarétti verða aftur níu að tölu.

Á sama hátt er gert ráð fyrir að dómarar í héraði verði 48 frá 1. mars 2011 en eftir 1. janúar 2013 verði ekki skipað í embætti héraðsdómara sem losna fyrr en þess gerist þörf þar til dómarar í héraði verða aftur 38. Dómarar í héraði eru nú 43 en þeim var fjölgað tímabundið um fimm með lagabreytingu í árslok 2009.

Í samvinnu dómsmálaráðuneytisins, Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Lögmannafélagsins og Dómarafélagsins hefur verið unnið að því að meta hvernig best væri að takast á við aukinn málafjölda hjá dómstólum. Hafa margir bent á að styrkja þurfi dómstólana enn frekar en gert hefur verið til að takast á við þann málaþunga sem hvílir á dómstólunum. Sú fjölgun dómara sem hér er lögð til byggist á tillögum sem fram hafa komið í þessari samvinnu, annars vegar frá Hæstarétti og hins vegar frá dómstólaráði.

Komið hefur fram hjá dómstólaráði að sú fjölgun dómara sem hér er lögð til muni ekki duga til að ráða við það álag sem fyrirsjáanlegt er að verði á héraðsdómstólunum á komandi árum og nauðsynlegt geti verið að fjölga þeim um fimm til viðbótar. Fyrirsjáanlegt er að ágreiningsmál frá slitastjórnum vegna krafna í þrotabú, einkum þrotabú fjármálafyrirtækja, muni verða umfangsmikil en slík mál eru jafnframt þung í vinnslu. Hafa Héraðsdómi Reykjavíkur borist um 530 slík mál frá því í byrjun þessa árs og er 500 þeirra enn ólokið. Gert er ráð fyrir að málin berist Hæstarétti á árinu 2011 eða í byrjun árs 2012, en málaþunginn sem nú hvílir á Hæstarétti er þegar mjög mikill. Þá bætist við að í landsdómi sitja fimm hæstaréttardómarar svo ljóst er að fjölgun hæstaréttardómara þarf að koma til hið fyrsta.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.