139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

dómstólar.

246. mál
[16:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir er til komið vegna hvatningar bæði frá þeim sem starfa innan dómskerfisins eða eiga við það samskipti og eins úr þinginu. Bent hefur verið á í umræðum undanfarin tvö ár að þær miklu hamfarir sem gengið hafa yfir íslenskt efnahagslíf á undanförnum missirum leiði til fjölgunar dómsmála, ágreiningsmála fyrir rétti, bæði einkaréttarlegs eðlis og eins sakamála, og er óþarfi að fara mörgum orðum um það.

Fjölgunin er að einhverju leyti þegar farin að birtast en hins vegar er hætt við að málafjöldinn eigi enn eftir að fara vaxandi, einkum þegar embætti sérstaks saksóknara fer að skila frá sér fleiri niðurstöðum því að þar eru auðvitað mörg stór mál til rannsóknar og gera má ráð fyrir að í einhverjum þeirra, kannski mörgum, verði ákært sem mun leiða til þess að dómskerfið þarf að fást við mál sem geta verið mjög umfangsmikil og erfið, sakamálalegs eðlis, auk þeirra fjöldamörgu einkamála sem fjármálahrunið kallar á þar sem mjög miklir og ríkir hagsmunir eru fyrir hendi.

Ég held því að það sé rétt mat hjá hæstv. dómsmálaráðherra að nauðsynlegt sé að bregðast við með einhverjum hætti. Hér er farin sú leið sem reyndar hefur oft verið nefnd í umræðum á þingi, að fjölga dómurum tímabundið. Fyrirkomulagið er nokkuð sem við þurfum ekki að fara mörgum orðum um í þessari umræðu, hægt er að taka það til skoðunar í allsherjarnefnd sem mun væntanlega fá málið til afgreiðslu.

Ég velti þó einu fyrir mér í tengslum við þetta mál sem væri gott ef hæstv. ráðherra gæti upplýst um í þessari umræðu. Það er hvort komið hafi til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu eða af hans hálfu að fara í undirbúning og jafnvel efna til svokallaðs millidómstigs í þessum málum, þ.e. dómstigs sem væri á milli héraðsdóms og Hæstaréttar og væri þá áfrýjunardómstóll sem hægt væri að áfrýja málum til eftir meðferð á fyrsta dómstigi. Það er hugsanlegt að það mundi að einhverju leyti styðja við eða kæmi jafnvel í staðinn fyrir þær breytingar sem lagðar eru til. Með því að hafa áfrýjunardómstól á millidómstigi væri trúlega miklu minni þörf fyrir þá breytingu er varðar Hæstarétt sem hér er lögð til.

Ég vildi varpa þessu inn í umræðuna vegna þess að það er auðvitað tengt því sem um er rætt. Ég hygg hins vegar að millidómstig mundi ekki breyta miklu um þörfina á að bregðast við á héraðsdómstiginu hvað varðar fjölgun dómara, hvort sem hún er tímabundin eða ekki. En það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti komið inn á málið í þessari umræðu og farið um það nokkrum orðum.