139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart NATO.

[11:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hennar. Ég fæ ekki annað séð en að það sé einhugur í ríkisstjórninni um þá stefnu sem mörkuð hefur verið innan NATO og á þessum fundi. Við höfum að sjálfsögðu ekki tekið aðra ákvörðun á Alþingi en að vera áfram innan þessa bandalags. Maður veit svo sem aldrei ævi sína alla í því efni.

Ég fagna áherslunni á kjarnorkuvopnalausan heim. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af þessu hvort mögulegur kostnaður Íslands af hinni sameiginlegu nýju stefnu eða grundvallarstefnu hafi verið metinn, hvort einhver kostnaður falli á Ísland t.d. vegna stefnu eða hugmynda varðandi eldflaugavarnir, eða hvað það nú heitir. Eins er mjög forvitnilegt, frú forseti, að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) upplýsi um hvort málið hafi verið rætt í ríkisstjórninni áður en farið var til fundarins.