139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[11:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér sem starfandi félags- og tryggingamálaráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Í frumvarpinu felst viðamesta endurskipulagning á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá flutningi gunnskólanna árið 1996. Þetta verkefni hefur lengi verið í vinnslu og verið unnið á vettvangi verkefnisstjórnar sem komið var á fót í febrúarmánuði 2009 með aðkomu sveitarfélaga og ríkis og í tíð minni sem félags- og tryggingamálaráðherra var fjölgað í verkefnisstjórninni og fulltrúar notenda fengu þar sæti líka.

Það hefur gengið mjög vel að vinna verkefnið á vettvangi verkefnisstjórnarinnar og náðst um það mjög góð sátt og samstaða milli sveitarfélaganna og ríkisins og notenda. Þetta frumvarp kemur fram seinna en væntingar stóðu til og ástæða þess er sú að það voru mál sem þurftu úrlausnar við sem lutu sérstaklega að starfsmannamálum og því hvernig farið skyldi með réttindi starfsmanna í kjölfar breytingarinnar. Nú hefur verið hoggið á þann hnút.

Í frumvarpinu felst að ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk verður færð frá ríki til sveitarfélaga. Sveitarfélögin munu bera ábyrgð á gæðum þjónustunnar og kostnaði vegna hennar nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Þau skulu einnig annast innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar. Frumvarpið er byggt á samkomulagi ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna um flutning faglegrar og fjárhagslegrar ábyrgðar á framkvæmd þjónustu til sveitarfélaganna.

Yfirstjórn málefna fatlaðra verður hjá velferðarráðuneyti og mun ráðherra bera ábyrgð á opinberri stefnumótun í málefnum fatlaðra sem unnin skal í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra hefur jafnframt eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaganna og annarra aðila samkvæmt lögum þessum sé í samræmi við markmið laganna og reglugerða og reglna sem á þeim byggjast og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Markmið eftirlitsins er m.a. að tryggja samræmda þjónustu við fatlað fólk og er í frumvarpinu kveðið á um að ráðherra hafi umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga varðar um 2.500 einstaklinga sem þurfa þjónustu vegna fötlunar sinnar og um 1.500 starfsmenn í rúmlega þúsund stöðugildum sem annast þjónustuna.

Eftir yfirfærsluna ber eitt stjórnsýslustig ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu. Þjónustan færist nær notandanum, möguleikar á samhæfingu þjónustusviða og aðlögun þjónustunnar að persónulegum aðstæðum notandans aukast til mikilla muna. Í þessu felast meginmarkmið yfirfærslu þjónustunnar til sveitarfélaganna með áherslu á að þessi breyting leiði til bættrar þjónustu. Sveitarfélögin eru almennt betur í stakk búin en ríkið til að laga félagslega þjónustu að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum. Tekjustofnar sem nema 10,7 milljörðum kr. flytjast til sveitarfélaganna samhliða yfirfærslu málaflokksins.

Þess er vert að geta að stefnt er að því af hálfu ríkisstjórnarinnar og félags- og tryggingamálaráðuneytis að haldið verði áfram með flutning verkefna til sveitarfélaganna og að í kjölfar þessarar yfirfærslu verði málefni aldraðra flutt yfir til sveitarfélaganna fyrir árslok 2011. Þessi breyting veitir sveitarfélögunum algjörlega nýtt tækifæri til að skilgreina frá grunni þá nýju félagsþjónustu sem þau veita og endurmeta og endurraða fyrirkomulagi í verkefnum og ná hagræðingu og hagkvæmni sem hefur verið erfitt að ná þegar félagsþjónusta hefur verið veitt á víxl af ríki og sveitarfélögum.

Virðulegi forseti. Ég mun nú rekja helstu efnisatriði frumvarpsins sem snúa að ýmsum faglegum þáttum, breytingar sem verða á fyrirkomulagi stjórnsýslu málaflokksins og ákvæði um jöfnunarðgerðir milli sveitarfélaga.

Lögfest verður ákvæði um að við framkvæmd laganna skuli tekið mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Einnig er kveðið á um að stjórnvöld skuli tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra aðkomu að stefnumörkun og ákvarðanir sem varða málefni fatlaðra.

Í bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að ráðist verði í sérstakt samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð. Frumvarpið felur því í sér fyrsta skrefið í þá átt að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð sem eitt meginform þjónustu við fólk með fötlun í samræmi við þingsályktun sem Alþingi samþykkti í júní í sumar.

Skýrt er kveðið á um bann við því að ráða fólk til starfa að þjónustu við fatlað fólk sem hlotið hefur refsidóma vegna brota á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Hafi einstaklingur brotið gegn öðrum ákvæðum hegningarlaganna heimila lögin einnig að fram fari mat á því hvort brotin hafi áhrif á hæfi hans til að standa að þjónustu við fólk með fötlun.

Almenn og sérstök réttindagæsla er mikilvægur þáttur í starfsemi svæðisráða og trúnaðarmanna fatlaðs fólks, en í gildandi fyrirkomulagi hefur réttindagæslan ekki verið virk sem skyldi. Þess vegna fól félags- og tryggingamálaráðuneytið starfshópi að vinna greinargerð með tillögum um úrbætur í þessum efnum og skilaði hann niðurstöðum sínum í mars 2009. Þar voru m.a. lagðar fram tillögum um persónulega talsmenn, svæðisbundna réttargæslumenn og réttindavakt félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Með frumvarpinu er lagt til að velferðarráðherra leggi fram frumvarp um réttindagæslu fyrir fólk með fötlun eigi síðar en í lok árs 2011 þar sem m.a. verða lögð til ákvæði um réttargæslumenn, persónulega talsmenn og aðrar aðgerðir til að draga úr nauðung við fólk með fötlun. Það er augljóslega mikilvægt að samhliða yfirfærslu málaflokks fatlaðra til sveitarfélaga verði settar skýrar reglur um réttindagæslu fatlaðra sem og það eftirlit sem félags- og tryggingamálaráðuneytið mun áfram hafa og bera ábyrgð á með gæðum þjónustunnar og að hún sé veitt með sambærilegum hætti um land allt.

Virðulegi forseti. Miðað er við að svæðisráð í málefnum fatlaðra verði lögð niður en að velferðarráðuneytið annist eftirlit með framkvæmd laganna fyrst um sinn. Til lengri tíma litið er stefnt að því að koma á fót almennri eftirlitsstofnun til að sinna gæðaeftirliti með velferðarþjónustu.

Hluti af gerð samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu málefna fatlaðra fól í sér ákvörðun um myndun þjónustusvæða. Byggt er á því að ákveðinn lágmarksíbúafjöldi sé nauðsynlegur á hverju svæði til að tryggja faglegt og fjárhagslegt öryggi þjónustunnar, jafnræði með þjónustuþegum, fjölbreytt þjónustuúrræði og nauðsynlega fagþekkingu í málaflokknum. Miðað er við að lágmarki 8 þús. íbúa innan hvers þjónustusvæðis og er myndun þjónustusvæða á grundvelli þessa ákvæðis lokið. Ráðherra verður þó heimilt að veita undanþágur frá skilyrði um íbúafjölda þyki það nauðsynlegt vegna landfræðilegrar legu einstakra sveitarfélaga. Svæðaskiptingin er ekki síst mikilvæg í ljósi þess að kostnaður getur orðið mjög mikill og erfitt að áætla fyrir fram hvernig kostnaðurinn verður til og þróast í einstökum tilvikum og því mikilvægt að svæðaskiptingin skapi svigrúm til ákveðinnar jöfnunar á álagi sem óhjákvæmilegt er vegna þess að fjöldi fólks með miklar þjónustuþarfir getur verið mjög misjafn milli staða.

Skýrt er kveðið á um að þeir sem þurfa á þjónustu að halda samkvæmt lögunum skuli sækja um hana hjá því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili og það er því á ábyrgð þess að taka ákvörðun um veitingu þjónustunnar. Svæðisráð um málefni fatlaðra verða sem fyrr segir lögð niður og eftirliti með framkvæmd laganna sinnt hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu fyrst um sinn en til lengri tíma litið, eins og áður var rakið, er stefnt að því að koma á fót almennri eftirlitsstofnun til að sinna gæðaeftirliti með allri velferðarþjónustu. Ráðherra mun skipa trúnaðarmenn fólks með fötlun sem ætlað er að gegna sambærilegu hlutverki og í núverandi kerfi.

Svæðisskrifstofur málefna fatlaðra verða lagðar niður enda taka sveitarfélögin við hlutverki þeirra og annast skipulag og framkvæmd þjónustunnar. Sveitarfélög og þjónustusvæði taka við rekstri þjónustustofnana og búsetuúrræða sem ríkið hefur rekið hingað til á grundvelli laga um málefni fatlaðra. Mikilvægt atriði frumvarpsins er ákvæðið um að sveitarfélög og þjónustusvæði starfræki teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf einstaklinga með fötlun fyrir þjónustu og hvernig koma megi til móts við óskir þeirra. Skulu teymin hafa samráð við einstaklingana og byggja mat sitt á viðurkenndum matsaðferðum. Stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga sem teknar verða á grundvelli laganna verða kæranlegar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála á sama hátt og ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Verður þetta að teljast mikil réttarbót fyrir þá sem þjónustunnar njóta.

Virðulegi forseti. Jöfnun kostnaðar er mikilvægt atriði við þessa yfirfærslu og í sjálfu sér sá þáttur sem fyrri tilraunir til yfirfærslu hafa strandað á. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði lagður niður og sömuleiðis stjórnarnefnd um málefni fatlaðra. Til að tryggja sem jafnasta stöðu sveitarfélaga verður komið á fót sérstökum sjóði í eigu og umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem annast umsýslu fasteigna í eigu ríkisins þar sem fólki með fötlun er veitt þjónusta. Auk þessa verður stofnuð sérstök deild í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem á að tryggja að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða endurspegli kostnaðarmun vegna ólíks fjölda fatlaðra íbúa og mismunandi þjónustuþarfar þeirra. Gert er ráð fyrir því að af þeim tekjustofni sem flyst yfir til sveitarfélaganna með þessari breytingu renni 80% í jöfnunarsjóðinn en 20% nýtist sveitarfélögunum beint.

Að því er varðar starfsmannamál er vert að geta þess að yfirfærslan til sveitarfélaganna snertir sem fyrr segir um 1.500 starfsmenn sem vinna að þjónustu við fatlað fólk. Við yfirfærsluna skipta langflestir þeirra um vinnuveitendur á grundvelli aðilaskiptalaga og verða engar breytingar á kjörum þeirra eða réttindum. Störf um 60 starfsmanna á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra verða lögð niður, en sveitarfélögin munu leitast við að bjóða sem flestum þeirra störf á sínum vegum. Félagsmenn í Starfsmannafélagi ríkisstofnana eiga þess kost að halda óbreyttri stéttarfélagsaðild en nýir starfsmenn munu ganga inn í bæjarstarfsmannafélögin eða önnur stéttarfélög sem hafa ótakmarkaðan samningsrétt við sveitarfélögin.

Virðulegi forseti. Eins og ég greindi í upphafi felur þetta frumvarp í sér viðamestu endurskipulagningu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá því að grunnskólarnir voru fluttir til sveitarfélaganna árið 1996. Ég er þess fullviss að verði frumvarpið að lögum mun það efla verulega sveitarfélögin í landinu og sveitarstjórnarstigið. Það er löngu tímabært að samþætta velferðarþjónustu á hendi sveitarfélaganna og efla staðbundið lýðræði með flutningi verkefna heim í hérað þar sem fólkið sem þarf á þjónustunni að halda býr og hefur meiri áhrif á gæði þjónustunnar og hvernig hún er veitt. Frekari flutningur verkefna á sviði velferðarmála til sveitarfélaganna sem ég rakti áðan á sviði öldrunarmála mun enn frekar styrkja félagsþjónustu sveitarfélaganna að þessu leyti og gera hana enn betur í stakk búna til að mæta ólíkum þörfum á hverjum stað. Þjónustan mun þá í öllum tilvikum færast nær notandanum og möguleikar á samhæfingu þjónustuþátta og aðlögun þjónustunnar að persónulegum aðstæðum notandans munu aukast til mikilla muna.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og vænti þess að það fái vandaða umfjöllun í félags- og tryggingamálanefnd. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til nefndar og 2. umr.