139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að frumvarpið kemur óþægilega seint fram. Hitt hefur auðvitað verið alveg ljóst, á hvaða forsendum unnið hefur verið að yfirfærslunni, og félags- og tryggingamálanefnd hefur verið upplýst um gang vinnunnar eftir því sem henni hefur miðað fram.

Allir helstu þættir þessa máls voru afgreiddir í sumar með samkomulagi sem kynnt var sérstaklega, sem ég undirritaði sem þáverandi félagsmálaráðherra í júlímánuði, þegar gengið var frá fjárhagslegum atriðum þessa máls. Allir helstu grunnþættir voru ákveðnir þá. Eftir stóðu örfá atriði. Fyrirferðarmest þeirra voru starfsmannamálin og mat ráðuneytisins var að rétt væri að bíða niðurstöðu í því máli áður en frumvarpið yrði lagt fram. Það má auðvitað halda því fram að kannski hefði verið betra að leggja frumvarpið fram fyrr og koma með breytingartillögur síðar en ég er ekki viss um að það hefði greitt fyrir úrlausn ágreiningsins um starfsmannamálin að hafa þann hátt á.