139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[13:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þetta frumvarp sem búið er að bíða ansi lengi eftir sé loksins komið fram og að við getum farið að fjalla um þetta mál. Frá sjónarhorni fatlaðs manns er það kærkomið. Það sem hefur reyndar vantað er stefnumótun frá ráðuneytinu. Ráðuneytið er búið að vinna að því að koma á stefnumótun síðan 2004, í sex ár. Hún er ekki búin enn og verður væntanlega ekki búin fyrr en nýtt kerfi verður tekið upp þar sem á aftur að fara í stefnumótun. Ég ætla að vona að sú stefnumótun verði dálítið hraðari þannig að menn verði búnir að móta stefnu gagnvart fötluðum innan tveggja, þriggja mánaða. Það er mjög mikilvægt einmitt að stefnumótun liggi fyrir og alveg sérstaklega þegar menn fara að dreifa þessu yfir á einhver svæði sem eiga að bera ábyrgð á málaflokknum, yfir á sveitarfélög þar sem ekki einn aðili rekur þetta heldur fjöldamargir. Það liggur reyndar ekki fyrir hversu margir.

Það er sagt að mynda eigi þjónustusvæði með 8 þús. íbúum. Ég gat hvergi séð það í greinargerð og hef ekki fengið að vita hversu mörg þessi svæði eru. Ég hef reyndar ekki haft tíma til að lesa hana alla, herra forseti, af því að ég var dálítið upptekinn í gærkvöldi við annað tengt þinginu. Ég hef heyrt á skotspónum að þau verði væntanlega 13. Hvar þau liggja á landinu veit ég ekki. Ég hef líka heyrt á skotspónum að það hafi nýlega verið ákveðið og það væri mjög gott í þessari umræðu að það yrði birt þannig að fatlaðir vissu nokkurn veginn á hvaða svæði þeir ættu heima. Mér finnst mjög mikilvægt að fólk viti það og hvaða sveitarfélög eru í þessu samstarfi. Frá sjónarhorni fatlaðs manns finnst mér þetta mjög mikilvægt.

Svo er hægt að kæra til úrskurðarnefndar sem er gott. Það hefur svo sem verið til áður í einhverju formi en þarna geta menn sem sagt kært til úrskurðarnefndar þannig að gagnvart hinum fatlaða manni er margt í þessu frumvarpi tryggt.

Svo á að leggja niður margar stofnanir, svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra, svæðisráð í málefnum fatlaðra, Framkvæmdasjóð fatlaðra og stjórnarnefnd um málefni fatlaðra. Þetta verður allt lagt niður núna um áramótin, bara allt í einu, og getur valdið ákveðnu óöryggi en að sjálfsögðu tekur eitthvað við og það þarf að kynna tímanlega fyrir fólki þannig að menn viti um hvað málið snýst, hvert þeir eigi að fara. Það verður væntanlega sami staðurinn og sama fólkið að miklu leyti þannig að þetta er kannski ekki eins mikil breyting og það virðist vera þegar menn lesa að það eigi að leggja þetta niður.

Síðan er hugsunin að hafa gæðaeftirlit með þessari þjónustu. Það er mjög nauðsynlegt og mjög gott, sérstaklega gagnvart þeim þjónustustofnunum sem sjá um framkvæmd málaflokksins í umboði sveitarfélaganna.

Við komumst ekki hjá því að ræða málefni Sólheima. Þar er ákveðin óvissa. Ráðuneytið hefur ekki gert samning við Sólheima í tvö ár þannig að menn þar vita í rauninni ekki eftir hvaða samningi þeir eiga að starfa. Svo hefur ekki farið fram mat á fötluðum þar í fjölda ára. Þó að lög kveði á um að það eigi að gerast árlega hafa menn ekki farið að lögum í því að framkvæma mat. Það er mjög slæmt, herra forseti, og ég vonast til að bragarbót verði gerð á þessu þegar nýtt kerfi verður tekið upp og þá verði farið eftir lögunum sem við erum að setja.

Svo vildi ég gjarnan koma inn á notendastýrða þjónustu sem ég bind vonir við. Mér finnst hún reyndar ekki nægilega ígrunduð í þessu frumvarpi og mér finnst henni ekki gert nægilega hátt undir höfði. Ég er að leita að því hvar þetta er vegna þess að ég hef ekki haft nægan tíma en það er eiginlega gefið til kynna að þetta sé verkefni til frambúðar, rannsóknarverkefni. Mér finnst að menn eigi að gefa þessu dálítið meiri þunga og það má vel vera að þegar nefndin fer að fjalla um frumvarpið verði því gefinn meiri þungi. Ég bind ákveðnar vonir við notendastýrða þjónustu. Hún þarf ekki endilega að vera dýrari, getur jafnvel verið ódýrari þegar fólkið sjálft sér um að skipuleggja starfið.

Frá sjónarhorni starfsmanna ræddi ég um það í andsvari áðan að fólk mun velflest halda sínum störfum eða því verður boðið nýtt starf. Einhverjir geta reyndar misst vinnuna og það er mjög slæmt í dag að opinberir starfsmenn, eða fólk yfirleitt, missi vinnuna vegna þess að það eru engin atvinnutækifæri neins staðar. Þegar rífandi vinna er úti um allt er ekki eins erfitt að skera niður ríkisbáknið en þegar skortur er á vinnu alls staðar og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki skilning á því hvað það er mikilvægt að skapa atvinnu eða skapa umgjörð fyrir það að atvinna myndist er mjög slæmt ef fólk missir vinnuna. Það getur orðið allt að því mjög harður dómur og hörð örlög fyrir viðkomandi starfsfólk.

Þjónustan á að sjálfsögðu að snúast um fatlaða, það á að vera nr. 1, 2 og 3. Síðan koma starfsmennirnir sem sinna þessari þjónustu en ég gef ekki mikið fyrir hagsmuni stéttarfélaganna, herra forseti. Samkvæmt lögum ber opinberum starfsmönnum að greiða í stéttarfélag sem þeim er skipað í, hvort sem þeir vilja vera þar félagar eða ekki, og ég er margbúinn að flytja frumvarp, sjö sinnum, um að það ákvæði verði afnumið, 2. mgr. 7. gr. starfsgreinalaganna. Þetta er ótrúlegt kerfi, brýtur allar reglur um rétt til að standa utan félaga og allt slíkt. Ef manni er gert að borga þarna inn verður hann að njóta þjónustunnar, sumarbústaðanna eða annars slíks, þannig að hann er neyddur til að fara inn í stéttarfélagið. Þarna eru þá komin ákveðin stéttarfélög sem hafa stimpil ríkisins, opinber stéttarfélög. Ég man eftir að það var ansi vinsælt í Sovétríkjunum. Þetta er einhver gömul arfleifð sem ætti fyrir löngu að vera búið að leggja af. Það hafa reyndar fallið dómar hjá Mannréttindadómstól Evrópu um iðnaðarmálagjaldið sem segir að þetta brjóti mannréttindi. Þetta eru hagsmunir stéttarfélaganna. Ef reiknað er með því að þetta séu 7 milljarðar kr. í laun er 1% af því 70 millj. kr. sem stéttarfélögin bítast um. Um það snerist þessi deila, þess vegna hefur allt frestast og þess vegna bíður fatlað fólk og veit ekki hvert það á að fara. Fatlað fólk líður fyrir það að stéttarfélögin, ekki starfsmennirnir, bítast um einhverja aura, reyndar ekki aura því að þetta eru miklir peningar.

Frá sjónarhorni sveitarfélaganna breytist mjög margt, t.d. myndaðist sjóður sem á að yfirtaka fasteignirnar. Og það myndaðist sjóður sem aukaútsvar á að renna í, 1,2%, og 80% renna svo aftur út til sveitarfélaganna. Þetta er mjög mikil breyting frá sjónarhorni sveitarfélaganna, enda hafa þau unnið mjög hart að því að gera samninga og undirbúa sig. Þau bíða núna sennilega í ofvæni eftir að Alþingi klári þessa lagasetningu. Ef þetta mál frestast af einhverjum ástæðum, herra forseti, er allt komið í óefni. Það bara má ekki.

Það á að setja í gang matsteymi og eftir ákveðinn tíma á að athuga hvernig þessi yfirfærsla hefur tekist. Það finnst mér jákvætt þannig að mjög margt af þessu er jákvætt.

Í lokin verð ég að segja að mér finnst þetta mjög hröð lagasetning. Hættan þegar menn fara í svona hraða lagasetningu er að hún verði hroðvirknisleg, það verði gerð einhver mistök. Ég hef t.d. ekki haft tíma til að lesa lagatextann sem hér er verið að skoða og reyna að átta mig á því hvernig hann virkar, bara hreinlega út af tímaskorti. Ég er búinn að lesa greinargerðina nokkurn veginn á handahlaupum. Hættan er sú að þegar menn fara svona með hraði í gegnum lagasetningu, og nefndin fær lítinn tíma, til viðbótar við allt annað sem menn eru að vinna í sambandi við fjárlögin er ekki alveg boðlegt fyrir Alþingi hvað þetta kemur seint inn. Ég kenni bæði ráðuneytinu um en kannski alveg sérstaklega þessum margumtöluðu stéttarfélögum.