139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

úttekt á samkeppnissjóðum á sviði vísinda og rannsókna.

165. mál
[16:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þarf enga hvatningu frá hv. þingmanni til að styðja við bakið á hæstv. menntamálaráðherra og gera eins og við mögulega getum á þessum erfiðu niðurskurðartímum í að styðja við að sjóðirnir fái fjármagn. Tölurnar sem ég nefndi áðan eru hærri en þegar hv. þingmaður var menntamálaráðherra, í sumum tilvikum. Ég held að við höfum sýnt á þessum erfiðu niðurskurðartímum að við höfum forgangsraðað í þágu þessara sjóða hjá Vísinda- og tækniráði.

Ég er sammála hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það er fjárfesting til framtíðar að fjárfesta í þessum sjóðum og í vísindum og rannsóknum og er eitt af því mikilvægasta sem við gerum til að styðja við hagvöxt og fjölga störfum. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég hygg að sú vinna sem verið er að vinna núna og ég lýsti áðan í framsögu minni muni skila okkur vel áleiðis að því markmiði að styðja betur við bakið á sjóðunum. Þess vegna erum við að skoða hvort ekki megi nýta þetta betur með því að sameina sjóði. Í skýrslunni sem ég vitnaði í er einmitt sagt, með leyfi forseta:

„Á tímum niðurskurðar þarf að forgangsraða með langtímauppbyggingu íslensks samfélags í huga […]“.

Jafnframt er á það bent að ítrekað hafi komið fram að of lítill hluti opinberra fjárveitinga til rannsókna og nýsköpunar fari í gegnum samkeppnissjóði. Þess vegna er talað um nauðsyn þess að fram fari endurskipulagning og endurskoðun á þessum sjóðum og það erum við að gera. Það er mikið kapp lagt á þessa vinnu og að niðurstaða liggi fyrir 17. desember. Á grunni þeirrar skýrslu er hægt að meta hvort skynsamlegt sé að sameina einhverja af sjóðunum eða (Forseti hringir.) breyta starfsemi þeirra á annan hátt.