139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins á faglegu háskólastarfi.

66. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég verð hins vegar að viðurkenna að mér finnst í rauninni að svarið við fyrri spurningunni hafi verið nei. Það er engin trygging fyrir því af hálfu ráðuneytisins að á niðurskurðartímum sé beitt faglegum viðmiðum þegar teknar eru ákvarðanir um hvar bera eigi niður í háskólum landsins. Sömuleiðis fylgist ráðuneytið ekki með því að við íslenska háskóla sé fylgt almennum reglum um akademískt frelsi. Mér sýnist að svar ráðherra við báðum þessum spurningum sé í rauninni nei.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessum málum. Ég hef ekki áhyggjur af fólkinu sem er fremst á þessu sviði, það fær allt vinnu annars staðar. Það fær vinnu í öðrum löndum og maður sér mjög hæft fólk í háskólunum, jafnvel heilu teymin, fara að vinna í öðrum löndum við aðra háskóla þannig að ég velti þessu ekki upp af umhyggju fyrir því ágæta fólki þó að ég beri hag þess vissulega fyrir brjósti. Ég er að hugsa um nemendurna og okkur sem ætlum að búa hér áfram. Ef við viljum að hér sé háskólastarf á heimsmælikvarða þá verðum við að sjá til þess að faglegum viðmiðum sé beitt og ég efast ekki um að hæstv. ráðherra sé í einlægni sammála mér um þau.

En ég held að við þurfum að standa skipulega að þessu og þá er ég að vísa í að framkvæmdarvaldið fylgist með þessum þáttum og upplýsi um það hvernig málin standa því þetta eru hlutlægir mælikvarðar og mikilvægt að þeir séu sem flestum ljósir, m.a. nemendum sem eru að velja sér háskóla. (Forseti hringir.) Mér þykir því vont að svörin séu nei en þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætissvar og hvet hæstv. ráðherra til dáða.