139. löggjafarþing — 38. fundur,  29. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[17:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sem kunnugt er urðu vandræði við skipun umboðsmanns skuldara sem tafði málið nokkuð. Svo þarf að byggja upp nýja stofnun og það tekur sinn tíma. Svo þarf að fá fólk til að sækja um vegna þess að mörg heimili bíða eftir einhverju betra. Það er alltaf til fólk í þjóðfélaginu sem er að lofa einhverju betra. Það er eðlilegt að fólk bíði þegar það á von á því að fá jafnvel almenna skuldaleiðréttingu og vilji ekki fara í sértæk úrræði á meðan.

Ég vona að umboðsmaður skuldara fari myndarlega af stað, að menn öðlist traust á starfseminni og treysti honum sem vini sínum, því að hann á að vera umboðsmaður skuldara og hann á að gæta hagsmuna skuldara. Vonandi fer fjöldinn að fara yfir þúsundið og síðan tvö þúsund fljótlega. Nú veit ég ekkert hvort þessi fimm þúsund sem ég nefndi sé rétt tala. Kannski það séu tvö þúsund eða tíu þúsund. Það veit það ekki nokkur maður vegna þess að það veit enginn um stöðu heimilanna. Þess vegna er ég með í smíðum frumvarp um að taka upp hraðvirka skoðun á stöðu heimilanna auk þess sem við ræðum í efnahags- og skattanefnd frumvarp frá ráðherra um sama mál. Ég vænti þess að við fáum upplýsingar um stöðu heimilanna fljótlega og þá geta menn metið betur hversu stór hópurinn er.