139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[14:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lauk ræðu sinni á því að segja að rekstrargrundvöllur landbúnaðarins væri tryggður. Er hægt að fullyrða það eftir allan þann niðurskurð sem við höfum horft upp á á síðustu árum? Eins og hefur reyndar verið bent á í ræðum var búið að semja um það við bændur að þeir hefðu gert sitt og því lýst hátíðlega yfir af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Hluti af því var að búvörusamningar voru ekki verðtryggðir. Í rauninni voru þar nánast brotin lög, jafnvel voru lög algjörlega brotin. Það var umdeilt á sínum tíma en menn þóttu alla vega ganga býsna langt. Svo leyfa þeir sér að ganga það langt núna að skerða kjör bænda um 9% til viðbótar. Það er búið að vera mjög undarlegt að fylgjast með því hvernig fulltrúar þessarar ríkisstjórnar hafa leyft sér að tala um bændur og samtök þeirra. Hver samfylkingarmaðurinn á eftir öðrum hefur komið upp sérstaklega til þess að hnýta í Bændasamtökin og fundið þeim allt til foráttu. Ég hélt sannast sagna að við þær aðstæður mundi samstarfsflokkurinn Vinstri grænir verja bændastéttina en það hefur nú verið eitthvað annað. Þar er sá flokkur enn eina ferðina kominn í einhvers konar verktöku fyrir Samfylkinguna. Samfylkingarmennirnir koma með einhverjar yfirlýsingar og láta sig svo hverfa. Hvar er til að mynda hæstv. forsætisráðherra sem ekki hefur sést í marga daga eða vikur? (Utanrrh.: Hún var hérna …) En hvað um það.

Samfylkingarmenn koma með alls konar blammeringar en svo mæta vinstri grænir og vinna fyrir þá í verktöku að helstu áhugamálum þeirra. Eitt af þeim áhugamálum er því miður að þrengja stöðugt að bændastéttinni, enda hafa íslenskir jafnaðarmenn löngum haft horn í síðu íslensks landbúnaðar. Ég var að vonast til þess að það yrði einhver breyting þar á eftir að landbúnaðurinn sannaði heldur betur gildi sitt eftir efnahagskrísuna sem við lentum í.

Við skulum vona að ekki komi til þess að bændur, sem almennt eru mjög hógvær stétt sem (Forseti hringir.) lætur lítið fyrir sér fara, (Forseti hringir.) þurfi að taka upp aðferðir franskra starfsbræðra sinna og mæta hér (Forseti hringir.) við þinghúsið með lífrænan áburð eða aðrar vörur til þess að leggja áherslu á mál sitt.