139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er lagt fram til þess að sníða ákveðna galla af lögunum um greiðsluaðlögun sem fram koma við framkvæmdina, enda höfum við þingmenn sem sitjum í félags- og tryggingamálanefnd haldið því á lofti frá því að við byrjuðum að breyta þessum lögum og betrumbæta þau að öll sú vinna hafi verið unnin í miklum flýti. Þess vegna var ljóst að það þyrfti að fylgjast vel með framkvæmdinni og því með hvaða hætti þyrfti að bæta löggjöfina. Hér er einn liður í því.

Það er mín skoðun að við séum hins vegar ekki búin og það sé mikilvægt að nefndin starfi áfram að því verkefni að fylgjast vel með. Atriði sem þarf m.a. að skoða er sú framkvæmd sem umboðsmaður skuldara fer nú með. Eftir því sem málunum fjölgar sem fara þar í gegn lærum við meira og sjáum betur hverju þarf að breyta í þessari löggjöf. Auðvitað er ekki til fyrirmyndar að haga málum með þessum hætti, en hins vegar tókum við þá afstöðu í nefndinni í sumar að það þyrfti að hafa hraðar hendur, gera sitt besta og bæta þá frekar í þegar fram í sækti og reynslan kenndi okkur hvað þyrfti að laga.

Á fundinum í dag fórum við yfir, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom inn á, það hvaða áhrif dómur Hæstaréttar hefði á þessa löggjöf. Niðurstaðan liggur fyrir í nefndarálitinu. Það er mikilvægt að taka það mál upp þrátt fyrir að við leggjum hér ekki til breytingar á því frumvarpi sem við ræðum. Það er mjög mikilvægt að vel sé farið yfir hæstaréttardóminn og teknar þá upp nauðsynlegar breytingar í kjölfar hans.

Eina færa leiðin sem við sjáum út úr þessu gagnvart greiðsluaðlöguninni sjálfri, þar sem dómur Hæstaréttar kveður mjög skýrt á um að ekki sé hægt að taka ábyrgðarmennina sjálfkrafa út úr menginu, er sú að menn semji sín á milli, þ.e. að kröfuhafarnir, skuldarinn og þá ábyrgðarmennirnir semji um það við greiðsluaðlögunina með hvaða hætti ábyrgðirnar eiga að gilda og þá væntanlega að tekið sé tillit til félagslegra aðstæðna og þær felldar niður ef skuldarinn sjálfur fer í greiðsluaðlögun. Þetta er það besta sem hægt er að gera í stöðunni eins og hún er í dag.

Ég vona einfaldlega að þetta frumvarp, verði það að lögum seinna í dag, verði til bóta enda mikilvægt eins og fram kom í fyrri umræðu um það að það verði að lögum fyrir mánaðamót vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það er mikilvægt og þess vegna styð ég þetta mál og mun veita því samþykki við atkvæðagreiðsluna þegar hún fer fram.