139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í þær umræður sem hafa verið á milli hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar. Ég vil þó byrja á því að segja að það sem snýr að því að vera með fjölskipað stjórnvald, þ.e. að geta fært starfsfólk á milli ráðuneyta ef mikið álag er á einu ráðuneyti umfram álag á einhverju öðru, tel ég vera skynsamlega breytingu. Þá eru menn ekki rígbundnir í þær föstu skorður sem nú eru fyrir hendi. Því tel ég það mjög skynsamlegt. Margoft hafa komið fram ábendingar frá mörgum hv. þingmönnum varðandi þá hluti.

En hvað varðar sameiningu ráðuneyta, eins og hæstv. forsætisráðherra benti á, stendur til og er í stjórnarsáttmálanum að stofna auðlindaráðuneyti og eitt atvinnuvegaráðuneyti með því að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér spánskt fyrir sjónir vegna þess að ég spurði sérstaklega að því í fjárlaganefnd þegar forsvarsmenn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis komu þar á fund fyrir nokkrum dögum hvort verið væri að vinna að sameiningu ráðuneytanna. Svörin hjá þeim fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem komu á fund fjárlaganefndar voru mjög skýr: Nei, það er ekkert verið að vinna að sameiningu ráðuneyta enda stendur hún ekki til. Hún stendur ekki til. Það voru mjög skýr svör. (Gripið fram í: Frá?) Frá fulltrúum ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þannig að ég er nú hálfvilltur í þessari umræðu, ég verð að viðurkenna það. Það hlýtur náttúrlega að vera skilaboð frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra enda hefur hann ekki legið á þeirri skoðun sinni, eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson benti á áðan. Hann sagði fyrir örfáum dögum í ræðustól Alþingis að þessi sameining væri náttúrlega algjört rugl og þvæla og kæmi ekki til greina. Þannig að maður veltir fyrir sér hvernig að þessu öllu er staðið þó svo að ég geri mér grein fyrir því að þetta standi í stjórnarsáttmálanum og hæstv. forsætisráðherra hljóti að þurfa að fylgja honum eftir.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort að það sé stjórnarmeirihluti fyrir þessu máli á Alþingi, hvort þetta frumvarp muni daga uppi að því leyti að það komi breytingartillaga frá allsherjarnefnd þegar hún fer yfir frumvarpið og fresti enn og aftur stofnun atvinnuvegaráðuneytisins, eins og gerðist í haust. Það hlýtur að vera stóra spurningin. Mér þykir þetta reyndar vera mikil tíðindi og tek því undir með hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni sem benti réttilega á áðan að þetta væru mikil tíðindi, sérstaklega eftir allar yfirlýsingar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er ekki nema von að maður verði hissa á þessu öllu saman og velti fyrir sér allri stjórn á landinu yfir höfuð á heildina litið þegar hæstv. ríkisstjórn veit ekki einu sinni hvert stefnir í fækkun ráðuneyta eða ráðherra, þá er ekki von á að hún hafi yfirsýn og stjórn á öðrum málum sem heyra undir hæstv. ríkisstjórn.

Mig langar að rifja aðeins upp þegar við ræddum sameiningu ráðuneyta í vor. Þá var málinu frestað fram á haustið. Það átti að vinna það í samstarfshópi undir allsherjarnefnd sem átti að stýra þeirri vinnu, enda hefur samkomulagið verið gott þar og nefndin sýnt það í öðrum málum að samstarfsandinn er góður og vilji mikill og samstaða þingmanna töluverð. Síðan gerðist það í sumar að samkomulagið var allt svikið og í einhverju pati ákveðið að sameina ráðuneytin tvö, annars vegar velferðarráðuneyti og hins vegar innanríkisráðuneyti. Ég hef nú haldið því fram eða leitt að því hugann, best að orða það þannig, að ástæðan fyrir því að rokið var upp til handa og fóta og farið í þá sameiningu sem átti ekki að verða fyrr en í haust hefði eingöngu verið þetta fræga lögfræðiálit sem fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra var með í fórum sínum og virtist hvorki hafa látið hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra vita af því þegar nýju bankarnir voru stofnaðir. Það var brugðið á það ráð að sá ágæti maður þyrfti ekki að mæta aftur til þings því að búið var að boða vantrauststillögu á hann. Það hefur verið uppsprettan að því að málið var rifið úr nefnd sem var gert við lögbindingu á sameiningu á ráðuneytunum tveimur.

Ég verð líka að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef ekki séð mikið en rifja nú upp ummæli hæstv. forsætisráðherra sem voru að mörgu leyti alveg rétt þegar hún sagði: Jú, auðvitað verður þingið og framkvæmdarvaldið að sýna frumkvæði í því að geta dregið saman og sparað þegar ætlast er til að aðrir geri það. Það hefur hins vegar ekki orðið raunin. Það kom mér verulega á óvart við lestur fjárlagafrumvarpsins núna eða þeirra draga sem voru lögð fram 1. október, sem er reyndar búið að breyta það mikið að varla er hægt að kalla þau drög, að niðurskurðarkrafan á aðalskrifstofur og sameinuð ráðuneyti var ekki nema 3–4%, annars vegar rúm 3% í öðru ráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, og hins vegar rúm 4%, meðan er stjórnsýslukrafa um 9% hagræðingarköfu hjá stjórnsýslu- og eftirlitsstofnunum. Það var mjög dapurlegt að lesa, virðulegi forseti, að það var einungis hæstv. forsætisráðherra sem fór að tilmælum ríkisstjórnarinnar og skar niður um 9% í ráðuneyti sínu. Það eru bara staðreyndir mála.

Það kom mjög skýrt fram hjá þeim fulltrúum sem mættu og ráðuneytisstjórum frá forsætisráðuneytinu að hæstv. forsætisráðherra vildi ekkert fyrr en búið væri að fara eftir þeim tilmælum að skera niður. Sú krafa er ekki gerð til annarra. Það hlýtur að vekja margar spurningar, þegar menn eru búnir að taka tvö ráðuneyti og gera að einu og steypa því saman í eina aðalskrifstofu, að hagræðingin skuli ekki geta verið meiri en 3–4% á aðalskrifstofunum. Á sama tíma er verið að skera niður, eins og í þessu tilfelli hjá velferðarráðuneytinu á mörgum sjúkrastofnunum um landið, mun hærri prósentur.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Mér finnst tíðindin vera mikil. Ég verð að hvetja hæstv. forsætisráðherra til að ætlast til þess í það minnsta að þeir hæstv. ráðherrar sem sitja í hennar ríkisstjórn framfylgi a.m.k. þeim ríkisstjórnarsáttmála sem hún er að boða. Hins vegar ef sameina á ráðuneytin í mars er einkennilegt að það skuli koma fram á fundi fjárlaganefndar fyrir örfáum dögum að akkúrat ekkert sé verið að vinna að sameiningunni, heldur þvert á móti komi skýr skilaboð um að ekki standi til að sameina þau. Maður verður dálítið hissa við þessa umræðu þegar kemur nú skýrt fram að það eigi að sameina ráðuneytin í mars.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra að fara yfir þetta á næsta ríkisstjórnarfundi þannig að allir hæstv. ráðherrar séu meðvitaðir um hvert verkefnið er því að ekki eru þeir meðvitaðir um önnur verkefni sem þeir eiga að gera, eins og dæmin sanna.