139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fyrst langar mig að ræða um styrki og bætur sjúkrasjóða. Það eru greiðslur sem koma fram á móti framlögðum kostnaði sem þeir sem í sjúkrasjóðunum hafa haft vegna veikinda eða vegna þess að þeir hafa sótt sér einhvers konar þjónustu vegna heilbrigðisástæðna. Ég tel að þetta sé eitt af því sem nefndin þurfi að fara yfir og skoða hvort að með þeirri löggjöf sem hér liggur fyrir sé með einhverjum hætti verið að mismuna fólki eftir því hvaðan það fær greiðslur.

Síðan nefndi hv. þingmaður hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að skattfrelsi þessara bóta ýti undir tryggingar á einkamarkaði. Með einhverju móti erum við að gera það. En rúmlega 40 þúsund manns hafa keypt sér þessar tryggingar og það kemur til af því að almannatryggingakerfið okkar hefur ekki þróast á þann hátt að það sé fullnægjandi fyrir fólk til að geta séð sér farborða í veikindum. Þessar tryggingar koma því fram á sjónarsviðið vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki staðið sig.

Ég sagði að sem jafnaðarmaður vildi ég að sjálfsögðu sterkt almannatryggingakerfi. Ég veit jafnframt að við höfum ekki bolmagn til að tryggja það núna og ekki á allra næstu árum. Ég er síðan sannfærð um það að ef pólitískur vilji verður til að leggja fjármuni í slíkt kerfi muni fólk að sjálfsögðu ekki velja að eyða peningunum sínum í iðgjöld til að kaupa sér sjúkdómatryggingar.