139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar í upphafi til að fagna sérstaklega þessu frumvarpi vegna þess að hér er verið að skera úr, eins og ég sagði áðan, ákveðinni réttaróvissu sem uppi hefur verið. Menn hafa á undanförnum 10, 15 árum eða svo átt þess kost að kaupa prívat sjúkdómatryggingar og það hafa menn gert undir þeim formerkjum að tryggingasalinn, þ.e. tryggingafélögin, hefur selt þessar tryggingar og fullyrt að bætur vegna sjúkdómatryggingarinnar, ef til útgreiðslu þeirra kæmi, væru skattfrjálsar.

Eftir dóm Héraðsdóms Reykjaness sem staðfesti bæði úrskurð skattstjóra í því umdæmi og yfirskattanefndar um að það væri ekki lagastoð fyrir skattfríðindum á þessum bótum skapaðist eins og ég sagði óvissa og menn hafa, bæði þeir sem áttu undir í því máli og aðrir sem eins er ástatt um, kallað eftir því ítrekað, m.a. á síðasta vetri, fyrir tæpu ári, við efnahags- og skattanefnd að þessari óvissu yrði aflétt. Hér kemur fram frumvarp um það, þar sem tekinn er af allur vafi um það með ívilnandi hætti til handa þeim sem hafa keypt slíkar tryggingar í góðri trú, að fram til morgundagsins verði þessar bætur sjúkdómatrygginga ekki skattskyldar. Eftir það er ekki verið að breyta neinu, það er ekki verið, eins og hér hefur verið látið að liggja, að taka upp skattlagningu á bótum af þessu tagi vegna þess að hún hefur alltaf verið fyrir hendi. Það er sem sagt staðfest núna með þessum dómi héraðsdóms.

Ég tel mjög mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að þetta mál fái framgöngu og fái skjóta afgreiðslu í hv. efnahags- og skattanefnd og ég tel að þetta sé góð lending sem hér er kynnt og styð það heils hugar. Ég tel, eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sem talaði áðan, að það sé ákveðinn misskilningur á ferð varðandi skattgreiðslur af þessum bótum. Eins og ég sagði áðan er ekki verið að taka upp skattlagningu á sjúkdómabótum af þessu tagi, þær reglur hafa verið í gildi. Enda þótt tryggingarnar hafi verið seldar undir öðrum formerkjum hefur skattlagning þeirra verið í lögum rétt eins og skattlagning á öðrum bótum. Ég vil nefna þar, auk þeirra bóta sem hér hafa verið nefndar, að greiðslur í veikindaleyfi eru skattlagðar sem venjulegar tekjur, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna eru skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur. Ég vil líka minna á, virðulegi forseti, að greiðslur fyrir slysabætur, slysabætur eru skattlagðar hvort heldur um er að ræða prívat tryggingar eða skyldutryggingar. Þá er skattalegt hagræði af eingreiðslunni reiknað, bótafjárhæðin lækkuð til samræmis við það og þar með er skatturinn goldinn og bæturnar greiddar.

Ég verð að segja alveg eins og er að það undrar mig að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skuli nefna það í sömu andránni að hún sé mikill jafnaðarmaður og þess vegna sé nauðsynlegt að festa hér í sessi tvöfalt tryggingakerfi. Það tel ég ekki jafnaðarmennsku. Ég verð að segja alveg eins og er að reynslan af því kerfi bæði í Svíþjóð og í Danmörku sérstaklega, þar sem tryggingar af þessu tagi hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum, er slík að það er orðið mjög umdeilt í þeim löndum báðum og það eru jafnaðarmenn einkum og sér í lagi sem gagnrýna þá stöðu sem uppi er þar.

Hvers vegna skyldi það vera? Jú, það er vegna þess að með þessu móti er verið í reynd að grafa undan þeirri grunnhugsun að allar tekjur skuli skattlagðar. Við vitum að hér er það svo í reynd, þær eru skattlagðar með mismunandi hætti bæði eftir því hversu háar þær eru og hvaðan þær eru komnar, svo sem eins og fjármagnstekjur eru skattlagðar með öðrum hætti en gert er með almennar vinnutekjur. En allar tekjur skulu skattlagðar, meira að segja gjafir og fríðindi hvers konar skulu talin fram til skatts. Þetta er meginstefið í skattkerfi okkar. Auðvitað eru til undantekningar á því eins og við þekkjum en þetta er meginstefið og ég vil halda mig við það. Ég tel að það sé ekki til hagsbóta fyrir neytendur eða fyrir okkur hér á landi að fara að byggja undir prívat sjúkratryggingar miðað við reynsluna sem er af þeim í Skandinavíu og ég tel ekki að við eigum að fara að brjóta upp samtryggingarkerfið okkar og skattkerfið með þeim hætti.

Frú forseti. Ég vona sannarlega að hv. efnahags- og skattanefnd taki þetta mál föstum tökum og eitt af því sem gera þarf, ef menn eru virkilega að tala um að hér eigi að gæta einhvers jafnræðis, er að horfa til þess sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi áðan og það er að greiðslur úr sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna eru skattlagðar rétt eins og bætur sjúkdómatrygginga og slysatrygginga, slysabætur. Ég mun kalla eftir því í hv. efnahags- og skattanefnd að það verði fundið út hversu miklum skatttekjum menn eru að afsala ríkinu og almannaþjónustunni ef menn ætla að ganga þessa leið til enda, því að það hlýtur þá að verða að vera þannig að greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga verði ekki heldur skattlagðar ef jafnræði á að nást, og það hlýtur þá hið sama að gilda um slysabætur líka.

Þetta er byrjun á tiltekinni kerfisbreytingu sem hér er um að ræða. Ef svo fer, sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson tók undir áðan, að það eigi að gera bætur af þessu tagi skattfrjálsar, sem þær ekki hafa verið með réttu þó að þær hafi verið seldar sem slíkar, þá eru menn að taka upp tiltekna kerfisbreytingu sem ég tel ekki til heilla, og þá tala ég, frú forseti, sem jafnaðarmaður.