139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að ræða við tryggingastærðfræðinginn um þessi mál. Ég hef spurningu til að leggja fyrir hv. þingmann. Hún er þessi:

Hver telur hann að sé munurinn annars vegar á tekjum almennt og bótum hins vegar?

Samkvæmt mínum skilningi eru bætur þess eðlis að þeim er ætlað að bæta einhvern miska, eitthvert tap, eða eitthvert tjón; tap atvinnutekna, tap á möguleikum til þess að afla sér atvinnutekna. Þess vegna er samtryggingarkerfið okkar til. Það nær langt aftur í tímann, aftur á söguöld, að menn hafa sameinast um það og gengið í sameiginlega ábyrgð til að bæta stærri tjón sem gætu orðið einstaklingum ofviða. Þegar slík samtrygging er annars vegar er iðgjaldið sem hv. þingmaður nefnir, smáræði í reynd. Að hafa það skattfrjálst er allt annars eðlis en að hafa bæturnar sem slíkar skattfrjálsar í grunninn. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að rétt væri að skoða hvaða samræmi eða ósamræmi er þar á milli hvað iðgjöld varðar, skylduiðgjöld til að mynda, og ég hlakka til að skoða það í hv. efnahags- og skattanefnd.

Ég minni aftur á að það liggur á að létta af þeirri réttaróvissu sem er gagnvart því máli sem nú bíður Hæstaréttar.