139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[15:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég tel rétt að taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um hinn hugsanlega Icesave-samning sem er einhvers staðar — ef hann er þá yfir höfuð til. Hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að stjórnarandstaðan sé jafn vel upplýst og ríkisstjórnin og ráðherrarnir, alla vega forsætisráðherra sjálfur, um þetta mál. Það verður til þess að ég, vitandi hversu mikið ég veit um þetta, fer að hafa efasemdir um það að hæstv. forsætisráðherra fái að vera með í öllum málum þessarar ríkisstjórnar, þ.e. ef fregnir af þessum Icesave-samningi eða drögum eru réttar.

Ég held að minnsta kosti að fullt tilefni sé til þess að utanríkismálanefnd þingsins komi saman til að fara yfir málið en ekki bara það heldur kynni sér einnig það bréf sem stendur til að senda, væntanlega á morgun, til Eftirlitsstofnunar EFTA. Enn höfum við enga hugmynd um hvernig Íslendingar ætla að færa rök fyrir máli sínu og ég hugsa að þetta bréf skipti töluverðu máli — (Forseti hringir.) en einnig ættum við að gera athugasemdir við að forstöðumaður þeirrar stofnunar sé orðinn vanhæfur til að taka á málinu í ljósi margítrekaðra pólitískra yfirlýsinga hans.