139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:37]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil það rétt verður sveitarfélögunum gert kleift að uppfylla þessi nýju og vonandi bættu lög um málefni fatlaðra. Það liggur fyrir og ég hef kynnst því aðeins í starfi hv. félags- og tryggingamálanefndar að þeim hagsmunaaðilum sem koma að málaflokknum þykir ýmislegt vanta í lagarammann, hann uppfylli m.a. ekki samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Við vitum að þetta kemur til með að kosta og að sveitarfélögin standa illa. Ég vil bara tryggja það og heyra aftur frá hæstv. fjármálaráðherra að það standi málaflokknum ekki fyrir þrifum að verið sé að flytja hann yfir og að nægt fjármagn fylgi.