139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Vinna við fjáraukalögin hófst þokkalega vel, hún gekk bærilega framan af og ber að þakka fyrir það. (Gripið fram í: Alla leið.) Þegar dró að lokum var spýtt í og síðasti fundur nefndarinnar var með hreinum ólíkindum. Ekki ber það vott um mikinn aga, sá fundur. Á 58 mínútum voru afgreiddar 55 þúsund millj. kr., það var milljarður á mínútu. Og yfirvegunin, rannsóknin á grunni þessa — (Gripið fram í.) milljarður á mínútu tæpast, það þurfti tíma til að setja fundinn og slíta honum og það er engin afsökun fólgin í því. Þetta verklag ber ekki vott um aga og vekur ekki þá von í brjósti að menn ætli að ná tökum á erfiðum ríkisfjármálum. Því miður verð ég að (Forseti hringir.) draga það í efa að fjáraukalagafrumvarpið 2010 sé einhvers konar yfirlýsing um að kreppunni sé lokið.