139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hrósar sér fyrir glæsilegan árangur. Í hverju felst sá árangur? Jú, afkoman er betri vegna þess að ríkissjóður greiðir á árinu 24 milljörðum kr. minna í vexti en áætlað var. Af hverju er það? Jú, vegna þess að ríkisstjórnin hefur áætlað u.þ.b. að hún þurfi að taka svo mikið af lánum en það er engan veginn hægt að sjá til hvers og af hverju við ættum að taka öll þessi lán. Það er allur batinn sem hér á sér stað og svo einskiptisaðgerð með hina svokölluðu Avens-vafninga. Væri ekki betra ef ríkisstjórnin hefði getað sagt að skattahækkanir á almenning hefðu skilað meiri tekjum í ríkissjóð? Það hefði verið gaman, en reyndin er einfaldlega sú að skattahækkanirnar og auknar álögur á heimilin í landinu skila ekki þeim árangri sem vænst var. Við verðum að líta á það (Forseti hringir.) rétt, við verðum að vinna betur á hallarekstri ríkisins. Halli næsta árs verður meiri (Forseti hringir.) vegna þess að hagvöxtur þessarar ríkisstjórnar er mun (Forseti hringir.) minni en áður var áætlað.