139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:27]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Hv. þingmaður hefur gefið ágætt yfirlit yfir gang mála, gagnrýnir í rauninni ekki það sem gert hefur verið heldur hve seint það er gert þegar við erum að tala um úrbætur um eiginfjárhlutfall.

Hv. þingmaður beinir til mín nokkrum spurningum og fylgir því eftir með spurningum sem eru skriflega fram bornar. Ég ætla að leitast við að svara þeim.

Í fyrsta lagi spyr hann hve mikið er áætlað að eigið fé og eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs verði á árunum 2010–2012. Eigið fé sjóðsins nam liðlega 10 milljörðum kr. í árslok 2009 og lækkaði í 8,4 milljarða kr. til 30. júní 2010 og er þannig sem svarar 2,1% af áhættugrunni, þ.e. CAD-hlutfalli. Í viðskipta- og rekstraráætlun Íbúðalánasjóðs fyrir árin 2011–2013 sem unnið var að beiðni Fjármálaeftirlitsins er áætlað að eigið fé sjóðsins haldi áfram að lækka á næstu missirum ef ekkert er að gert.

Varðandi fjárþörf Íbúðalánasjóðs á næstu árum að mati ráðherra, þess sem hér stendur, er vísað í greinargerðina sem birt var í félags- og tryggingamálanefnd og fjárlaganefnd á föstudaginn. Þar kemur m.a. fram að leggja þurfi Íbúðalánasjóði til 22 milljarða kr. fyrir árslok 2010 til að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði ekki undir 5% í lok árs 2011. Þá þarf líka að leggja til til viðbótar 2,2 milljarða kr. fyrir árslok 2011 til að það markmið náist að eiginfjárhlutfallið fari ekki undir 5% fram til ársins 2013. Þetta er samkvæmt þeim áætlunum sem unnar hafa verið, bæði af sjóðnum sjálfum og síðan yfirfarnar af Fjármálaeftirliti. Þetta er gert til að mæta þeim afskriftum sem búist er við að eigi sér stað fram til ársins 2013 ásamt því að hækka eiginfjárhlutfallið sjálft þannig að það fari ekki undir þessi 5% sem reglugerðarákvæði kveða á um.

Til viðbótar þeim fjárhæðum sem nefndar eru hér er ljóst að ríkissjóður þarf að leggja sjóðnum til aukið eigið fé til að mæta samkomulagi um skuldavanda heimilanna. Ákveðnar upphæðir hafa verið nefndar í þessu samhengi, en endanleg tala liggur ekki fyrir. Íbúðalánasjóður er enn að reikna áhrif af þessu samkomulagi, m.a. að kanna hvort skörun verði á niðurfærslunni og því sem sjóðurinn hefur nú þegar áætlað í afskriftir. Mundi slíkt þannig hafa áhrif til lækkunar á eiginfjárframlagi ríkisins.

Það sem m.a. hefur tafið vinnu sjóðsins er að sjóðurinn hefur ekki haft upplýsingar um veðröð á þeim eignum sem lánað hefur verið til, en slíkt hefur eðlilega mikil áhrif á hversu miklar afskriftir sjóðsins verða. Íbúðalánasjóður hefur leitað eftir upplýsingum um þessi mál og er að vinna að því að bæta þeim inn í reikningsvinnu sína.

Varðandi þriðju spurningu hv. þingmanns ætlar ráðherra að beita sér fyrir rannsókn á sjóðnum. Þá get ég sagt að fyrir liggur þingsályktunartillaga frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um að gera rannsókn á Íbúðalánasjóðnum og ég styð þá tillögu heils hugar og mæli með að hún fái framgang í þinginu þannig að sú vinna geti átt sér stað í framhaldinu.

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður af hverju spurningum hv. þingmanns hafi ekki verið svarað og vitnar þá í þskj. 229, 89. mál þingsins. Þeim spurningum var svarað, en ég skil athugasemdina þannig að svörin hafi ekki þótt fullnægjandi og geri ráð fyrir að í þeim 12 spurninga lista sem er lagður fram í dag, að mér skilst — og er þá svar við fimmtu spurningunni — sé þeim fylgt betur eftir. Að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því að þessum spurningum verði svarað. Mér er ekki alveg fyllilega ljóst hvað átt er við með að spurningunum hafi ekki verið svarað í fyrri lotunni eða hvað hafi staðið út af.

Sjötta spurningin er: Af hverju voru fjárlaganefnd og félagsmálanefnd ekki upplýstar fyrr en nú um stöðu sjóðsins? Eins og fram kemur í fyrirliggjandi greinargerðum sem vísað er til hér að framan og fyrrnefndar þingnefndir hafa fengið hefur á undanförnum mánuðum verið unnið af hálfu Íbúðalánasjóðs, félags- og tryggingamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis mat á áætlaðri afskriftaþörf sjóðsins næstu ár. Sú vinna er afar umfangsmikil, enda fjölmargir óvissuþættir sem henni tengjast. Niðurstöðurnar voru kynntar í nefndunum tveimur jafnskjótt og þær lágu fyrir í síðustu viku. Er ég kom að í ráðuneytinu var einmitt verið að bíða eftir niðurstöðum frá Fjármálaeftirlitinu þar sem mat var lagt á þessa þætti og ástæðan fyrir því að þetta kemur svo seint er m.a. að það var ekki fyrr en mjög seint sem þessar tölur allar lágu fyrir.

Síðasta spurningin er: Er gert ráð fyrir að ríkissjóður fái til baka þá fjármuni sem lagðir eru inn í sjóðinn, þá á hvaða kjörum og á hve löngum tíma? Á þessari stundu er auðvitað ekki hægt að segja fyrir um það hvort þessir peningar koma til baka. Slíkt ræðst m.a. af því hvaða kröfur stjórnvöld gera um eiginfjárhlutfall sjóðsins til frambúðar, hvert skipulag sjóðsins (Forseti hringir.) verður og þá kröfur um arðgreiðslur og annað.