139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mig langar að nota þessar tvær mínútur sem ég hef til að benda í meginatriðum á grundvallaratriði. Á Íslandi fór nánast allt fjármálakerfið á hliðina, m.a.s. Seðlabanki Íslands fór á hausinn og inn í Seðlabankann þurfti að setja eina 300 milljarða kr., en Íbúðalánasjóður stendur og er enn þá hornsteinninn í íbúðalánakerfi landsmanna. Þetta er stofnun með 800 milljarða kr. efnahagsreikning og vissulega með eiginfjárstöðu upp á 2,1% núna, var með 7% eða 8% eiginfjárstöðu þegar hrunið skall á. Hann sem sagt stendur. Hann sinnir hlutverki sínu. Hann missti 10 milljarða kr. í hruninu. Hann hefur þurft að afskrifa 2–3 milljarða kr. vegna íbúðalána í kjölfar hrunsins. Ég get alveg skilið að það sé rannsóknarefni að þegar allt fór á hliðina á Íslandi skuli Íbúðalánasjóður enn standa. Ég styð það að menn rannsaki það. (SKK: Af hverju heldurðu …?) (Gripið fram í.)

Einnig finnst mér rannsóknarefni að þrátt fyrir að raddirnar hafi verið gríðarlega háværar á hinu pólitíska sviði, erlendar eftirlitsstofnanir krafist þess að Íbúðalánasjóður yrði einkavæddur og erlend matsfyrirtæki líka, var hann samt ekki einkavæddur. Ég þakka mínum flokki fyrir að hafa staðið gegn, ekki bara íslenskum stjórnmálamönnum heldur heimsbyggðinni allri, liggur mér við að segja, í þeirri viðleitni sinni að vernda Íbúðalánasjóð. Það er kannski líka rannsóknarefni hvernig það tókst að varðveita Íbúðalánasjóð sem þá mikilvægu ríkisstofnun sem hann er. Ég styð það eindregið.

Vissulega þarf að setja fé í Íbúðalánasjóð, en það er hins vegar óljóst hversu mikið þarf. Augljóslega þarf að afskrifa meira, m.a. í kjölfar (Forseti hringir.) aðgerða ríkisstjórnarinnar sem boðaðar eru, en það hversu mikið eiginfjárhlutfallið þarf að vera í sjóði í eigu ríkisins með ríkisábyrgð er spurning (Forseti hringir.) sem þarf að svara.