139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[16:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við hér frumvarp til laga um mannvirki. Í raun er litlu við að bæta þar sem tveir hv. þingmenn í umhverfisnefnd hafa sagt á undan mér. Að meginstefinu til erum við mjög sammála um þær breytingartillögur sem lagðar eru fram á hvorki meira né minna en 15 blaðsíðum á þskj. 350.

Frumvarpið er mjög yfirgripsmikið og var lagt hér fram á haustþingi ásamt skipulagslögum til breytingar en varð ekki að lögum þannig að nú hefur umhverfisnefnd tekið höndum saman til að reyna að vanda þetta vegna þess að ný skipulagslög eiga að taka gildi 1. janúar 2011. Það hefur verið ágætissamstarf í nefndinni um málið enda er það yfirgripsmikið eins og ég segi. Að vísu má segja að það hafi kannski ekki verið nógu vel unnið til umhverfisnefndar sem sést á þessum fjölda breytingartillagna. Það vekur athygli mína líka að einstaklega margir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við frumvarpið. Það er gott því að þannig eiga góð frumvörp að verða til, aðilar sem hafa hagsmuni af þeim lögum sem verið er að setja á Alþingi eiga að geta komið að sjónarmiðum sínum. Er kannski ekki alltaf allt of mikið hlustað á þau.

Ég skrifa með fyrirvara undir nefndarálitið á þessu þingskjali, fyrst og fremst vegna þess að formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Mörður Árnason, hefur heitið því og ætlar að standa við það eins og ég heyrði í framsöguræðunni að taka þetta mál inn í umhverfisnefnd milli 2. og 3. umr. því að þá er enn tækifæri til að koma að breytingum.

Hér hefur komið fram að í meginatriðum er ég hlynnt þessu þó að ég gagnrýni þann kostnað sem hlýst á þessum niðurskurðartímum af því að stofna þá nýju stofnun sem lagt er til í breytingartillögunum að nefnd verði Mannvirkjastofnun í stað Byggingarstofnunar. Um starfsmannamál og annað milli stofnana þegar þessi nýja stofnun kemur til ætla ég ekki að fjalla, fólk getur lesið um það í þessu frumvarpi, en vissulega stingur í augu að samkvæmt fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins skuli það eiga að kosta um 100 millj. kr. aukalega.

Fleira ætla ég svo sem ekki að tala um í þessari umferð vegna þess að megnið af þeim athugasemdum sem ég hafði er þegar komið hér fram en geri það að lokaorðum mínum að enn er hægt að koma athugasemdum á framfæri til nefndarinnar séu enn þá einhverjir hnökrar á þessu. Þegar um svo mikinn lagatexta er að ræða sjá augu betur en auga.

Samband íslenskra sveitarfélaga kynnti á fundi umhverfisnefndar í dag að það væri nú þegar komið með athugasemdir um þær breytingartillögur sem liggja fyrir og því ber að fagna að aðilar fylgist með þessari lagasetningu.

Frú forseti. Ég læt þetta vera orð mín um þessa tillögu og hef gert grein fyrir því hvers vegna ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.